Fjölmiðlar harðlega gagnrýndir fyrir ótímabærar myndbirtingar

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

„Rétt fyrir hádegi er ég kölluð út til að sinna hópslysi á Bráðamóttökunni. Á meðan við bíðum frétta frá Landhelgisgæslunni, þyrlulækni og neyðarlínunni sjáum við myndir af vettvangi á visir.is. Þær eru ekki frá lögreglunni á slysstað og ekki frá viðbragðsaðilum. Þær eru frá manni (Adolf Inga Erlingssyni) sem kemur að slysinu og ákveður að taka upp símann, taka myndir af stórslösuðum sem eru að upplifa sína verstu martröð og látnum ættingjum þeirra. Hann ákveður því næst að senda félögum sínum hjá fjölmiðlum myndirnar sem taka síðar ákvörðun um að birta þær. Björgunaraðgerðir í rauntíma, verðum að fá fleiri klikk á fréttirnar okkar, verðum að selja fleiri fréttir, skítt með siðferðið, skítt með tilfinningar fórnarlambanna, skítt með friðhelgi einkalífsins, skítt með rétt viðbragðsaðila til að fá að vinna án þess að vera ljósmyndaður.“

Þetta skrifar Elín Tryggvadóttir á fésbókina í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heilbrigðisstarfsfólk á vettvangi er ósátt við myndbirtingar fjölmiðla af slysstað, en gagnrýni Elínar, sem er hjúkrunarfræðingur á bráðadeild, er óvenju harkaleg að þessu sinni. Fjölmargir aðrir starfsmenn Landspítalans hafa aukinheldur deilt færslunni.

Og Elín heldur áfram:

„Við blörruðum myndirnar“ hugsar kannski ritstjórinn til að friða samviskuna. Áhugasamir geta samt séð hvað er undir blörrinu, litla blörrið er sennilega barnið… fleiri klikk á fréttina, win, win.

Þyrlan lendir á þyrlupallium við LSH Fossvogi. Búið er að loka aðlægum götum og fjórir lögreglumenn eru viðstaddir til að halda fjölmiðlum og óviðkomandi frá. Samt birtist mynd á mbl.is af starfsfólki þyrlunnar og neyðarflutningamönnum að flytja hina slösuðu í hús. Blaðamaðurinn lá með papparassalinsu í grasinu tugi metra frá þyrlupallinum til að fanga augnablikið. Vona að hann sé stoltur af sjálfum sér,“ segir Elín.