Fjórir á Landspítala með COVID-19 — einn á gjörgæslu

Bráðamótaka Landspitalans Fossvogi.

Fjórir hafa nú verið lagðir inn á Landspítalann vegna COVID-19, þar af voru tveir lagðir inn í gær, samkvæmt upplýsingum Viljans. Einn er nú á gjörgæslu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í spjalli við Kára Stefánsson og Björn Inga Hrafnsson að það ráðist um helgina hvort gripið verður til harðari sóttvarnaráðstafana eftir helgi til að kveða niður þriðju bylgju veirunnar hér á landi. 38 smit greindust á laugardag og er nýgengið hér á landi (fjöldi smita per 100 þúsund íbúa sl. 14 daga) komið yfir 110, sem er tæplega sexfalt meira en þarf til að komast á rauðan lista á heimsvísu yfir þau lönd þar sem veiran er hvað skæðust.

435 eru nú í einangrun hér á landi og 1.780 í sóttkví. Miðað við fyrri reynslu úr faraldrinum má gera því skóna, að enn muni fjölga í hópi COVID-19 sjúklinga á Landspítalanum á næstu dögum, þar eð venjulega líða 7-14 dagar frá fyrstu einkennum þeirra sem veikjast illa, þar til veikindi versna til muna.

Þegar 75 greindust með veiruna fyrir á laugardaginn fyrir rúmri viku, kvaðst sóttvarnalæknir vera að velta fyrir sér harðari aðgerðum. Ekki hefur enn orðið af því, en í millitíðinni hafa 250 manns til viðbótar greinst með veiruna og verið settir í einangrun.

Næsti upplýsingafundur Almannavarna verður kl. 14.03 á morgun.