Fjórir hægri flokkar mynda bandalag um skynsemi innan ESB

Fulltrúar flokkanna fjögurra, frá vinstri: Olli Kotro (Finnar). Jörg Meuthen (AfD), Matteo Salvini (Bandalagið) Anders Vistisen (DF).

Danski þjóðarflokkurinn (DF) tilkynnti mánudaginn 8. apríl að hann yrði aðili að bandalagi gagnrýnna flokka innan Evrópusambandsins fyrir kosningarnar til þings ESB sem fram fara undir lok maí. Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, var höfuðhvatamaður að stofnun bandalagsins og kynnti hann það á fundi í Mílanó.

Finnski flokkurinn (Sannir Finnar) hefur einnig kynnt aðild sína að bandalaginu auk stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Þýskalandi, Alternative für Deutschland (AfD).

Markmið samstarfsins er að „skynsemin ráði“ innan ESB en ekki að vinna að úrsögn landa úr sambandinu. Á blaðamannafundi forystumanna flokkanna fjögurra DF, Finnska flokksins, AfD og Bandalagsins var kjörorðið: Evrópa skynseminnar kynnt.

Matteo Salvini er formaður Lega, Bandalagsins, annars stjórnarflokkanna á Ítalíu, innanríkisráðherra og vara-forsætisráðherra. Hann hefur lengi unnið að því á vettvangi ESB-þingsins að mynda bandalag flokka sem almennt eru taldir langt til hægri. Salvini hefur beitt sér af hörku gegn komu ólöglegra innflytjenda til Ítalíu og áunnið sér vinsældir á heimavelli vegna stefnu sinnar.

AfD kom til sögunnar sem stjórnmálaflokkur árið 2013 en fékk þá ekki nægilega mikið fylgi til að ná manni á sambandsþingið í Berlín. Flokkurinn beitti sér einkum gegn evrunni í upphafi en breytti um stefnu eftir að flótta- og farandfólk streymdi til Þýskalands árið 2015 og snerist gegn stóru flokkunum í útlendingamálum sem leiddi til mikillar fylgisaukningar flokksins í sambandsþingkosningunum árið 2017, nú er flokkurinn með 91 af 709 þingmönnum á sambandsþinginu.

Finnski flokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn hafa átt fulltrúa í sama þingflokki á ESB þinginu til þessa. Þeir leggja báðir áherslu á þjóðleg gildi og stranga útlendingalöggjöf. Finnski flokkurinn á ráðherra í ríkisstjórn Finnlands. Danski þjóðarflokkurinn hefur aldrei átt fulltrúa í ríkisstjórn en styður stjórn borgaraflokkanna og Pia Kjærsgaard, forystukona flokksins frá upphafi, er nú forseti danska þingsins. Hún vekur heitar tilfinningar vegna stefnu sinnar eins og sannaðist þegar hún var heiðursgestur alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018 vegna 100 ára afmælis fullveldisins.

Þjóðarhreyfingin ætlar að vera með

Flokkarnir fjórir stefna að samstarfi við Rassemblement National, Þjóðarhreyfinguna í Frakklandi undir forystu Marine Le Pen. Fram til ársins 2018 hét flokkurinn Front National, Þjóðfylkingin. Flokkurinn er andvígur aðild Frakklands að NATO, að Schengen-samstarfinu og Evru-svæðinu.

Matteo Salvini flutti kveðju frá Marine Le Pen á blaðamannafundinum og einnig frá Geert Wilders, leiðtoga Frelsisflokksins, í Hollandi. Wilders er frægur fyrir andúð sína á múslimum og vill flokkur hans til dæmis að moskur verði bannaðar í Hollandi auk Kóransins.

Markmiðið er að flokkarnir myndi sameiginlegan þingflokk á ESB-þinginu eftir kosningarnar sem fara fram í ESB-löndunum 23. og 26. maí. Hefur þingflokknum verið valið enska heitið European Alliance of Peoples and Nations (EAPN). Er hann sagður opinn öllum sem virða hefðir og föðurlandsást. Þar sé hins vegar ekki vettvangur fyrir sósíalista, kommúnista, umhverfisfasista og öfgammenn, hvorki frá vinstri né hægri.

Takist Salvini að fá stjórnarflokka í Austurríki, Ungverjalandi og Póllandi til að ganga til liðs við þetta nýja bandalag telja stjórnmálaskýrendur að áhrif þess geti orðið veruleg á ESB-þinginu.

Af vardberg.is, birt með leyfi.