Fjórir stjórnarandstöðuflokkar leggja til lausn á málþófi

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Allir stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, utan Miðflokkurinn, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem lögð er til lausn til að leysa úr þeirri pattstöðu sem skapast hefur vegna málþófs Miðflokksins í orkupakkamálinu og störukeppni milli flokksins og ríkisstjórnarflokkanna.

„Undanfarnar vikur hefur staðið yfir málþóf níu þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann sem komið hefur í veg fyrir þinglega meðferð allra annarra mála.

Það er gagnrýnivert að mörg stór mál ríkisstjórnarinnar hafa komið allt of seint fram, þar á meðal innleiðing þriðja orkupakkans, auk þess sem enn er beðið eftir nýrri fjármálastefnu og breyttri fjármálaáætlun.

Mörg gríðarlega mikilvæg mál bíða afgreiðslu og vandséð hvenær þau fái þinglega meðferð.

Stjórnarmeirihlutanum hefur mistekist algjörlega að höggva á þennan hnút.

Undir liggja miklir hagsmunir almennings og ótækt annað en að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, fái tækifæri til að sinna þessum verkefnum í þágu kjósenda af fullum krafti.

Því leggja eftirfarandi flokkar fram þá lausn að flokkarnir semji um afgreiðslu þeirra mála sem bíða og innleiðing þriðja orkupakkans verði færð aftast á dagskrá þessa þings,“ segir í yfirlýsingu frá formönnum Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins.