Sænska leiðin í baráttunni við kórónuveiruna Covid-19 er víðfræg og umdeild. En á meðan mörg lönd Evrópu sjá nú loks dánartölur fara lækkandi um leið og ýmsum höftum er aflétt, horfa Svíar fram á þá staðreynd að hvergi í Evrópu létust fleiri af völdum veirunnar undanfarna viku, sé miðað við höfðatölu.
Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Svíar hafa haldið skólum, veitingastöðum og flestum öðrum fyrirtækjum opnum undanfarnar vikur meðan önnur lönd hafa gripið til margvíslegra óyndisúrræða á borð við útgöngubann. Margir telja að þetta verði til þess að Svíar finni miklu síður fyrir efnahagsskellinum af völdum veirunnar en aðrar Evrópuþjóðir.
Dánartölur í Svíþjóð fara nú lækkandi eins og víðar í álfunni, en engu að síður létust 6,25 af hverri milljón íbúa í landinu vikuna 12. til 19. maí samkvæmt tölum sænsku hagstofunnar. Það er hið mesta í Evrópu, jafnvel meira en í Bretlandi þar sem ástandið hefur verið með versta móti. Hlutfallsleg dánartala þar var á sama tímabili 5,75 á hverja milljón íbúa.
Heildartala látinna miðað við höfðatölu er enn þannig að Bretland, Spánn, Ítalía, Belgía og Frakkland tróna á toppnum þrátt fyrir útgöngubann og allskonar drakónískar takmarkanir á daglegu lífi fólks. Norðurlandaþjóðirnar –– utan Svía –– eru með allt aðrar og lægri tölur.
Sænska leiðin mun ef til vill gera það að verkum að þjóðin verði fyrr að ná sér aftur á strik, en engum blöðum er um það að fletta, að veiran hefur tekið sinn toll. Fleiri Svíar létust þannig í nýliðnum aprílmánuði en í nokkrum mánuði síðan 1993, skv. tölum sænsku hagstofunnar.
Alls hafa nú ríflega 3.700 látist af völdum covid-19 í landinu en talnaspekingar hagstofunnar benda þó á að nokkrum sinnum hafi fleiri látist af völdum árstíðabundinnar inflúensu, til dæmis í desember 1993 og í janúar árið 2000.