Flokksráð VG fundar í skugga afhroðs í Þjóðarpúlsi Gallup

Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans, myndu falla af þingi og hvorki ná lágmarki fyrir jöfnunarþingmann eða nokkrum kjördæmakjörnum manni á þing, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, sem Ríkisútvarpið skýrði frá í kvöld. Aldrei í Íslandssögunni hefur það gerst að flokkur forsætisráðherrans í ríkisstjórn tapi öllum þingsætum sínum og sætir könnunin því miklum tíðindum, ekki síst fyrir þær sakir að flokksráðsfundur VG hófst í dag.

Þjóðarpúlsinn er mæling á fylgi stjórnmálaflokkanna allan febrúarmánuð og er vísbending um niðurstöðurnar, ef gengið yrði til kosn­inga í dag. Samfylkingin dalar lítillega en mælist áfram stærst, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur sækja í sig veðrið en litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka.

VG mæl­ist með 4,7% fylgi, voru í 5,5% fylgi fyrir mánuði og hefur aldrei verið lægra.

Langstærsti flokkurinn, samkvæmt könnuninni, er Samfylkingin, þótt hún dali lítillega milli mánaða. Fylgið er nú 28,2%.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn bæt­ir aðeins við sig, er nú með 19,9& og Miðflokkurinn er áfram í stórsókn, hefur ekki mælst stærri í rúm fjögur ár og fær 12,8% fylgi.

Fram­sóknarflokkurinn fengi 8,8% fylgi, Pírat­ar 8,0%, Viðreisn 7,5%, Flokk­ur fólks­ins 6,8% og Sósí­al­ist­ar fengju 3,5%.