„Við þurfum ávallt í okkar hreyfingu að rifja það upp af hverju við erum í stjórnmálum. Síðast þegar við hittumst þá ræddi ég það einmitt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur breytt um ýmsar áherslur á þeim 20 árum sem við höfum starfað. Stjórnmálaflokkur er ekki safn stofnað um menningararf heldur hreyfing fólks,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna í setningarræðu flokksráðsfundar VG í dag. Flokkurinn fagnar einmitt tuttugu ára afmæli um helgina.
Þær áherslur og skoðanir sem við stóðum fyrir og voru úthrópaðar sem öfgastefna eru núna orðnar almennar og lítt róttækar
„Þær áherslur og skoðanir sem við stóðum fyrir og voru úthrópaðar sem öfgastefna eru núna orðnar almennar og lítt róttækar. Um leið höfum við breytt áherslum okkar og stefnu í ýmsum málum þó að gildi okkar hafi ekki breyst. Og í sumum málum hefur verið tekist á á landsfundum þar sem hreyfingin hefur skipst í nánast hnífjafnar fylkingar. En við höfum yfirleitt haldið það í heiðri að virða félagslegar niðurstöður og fylgt þeim,“ sagði Katrín ennfremur.
Hún vísaði til þess að um þetta snúist stjórnmálaflokkar, að vera vettvangur fólks sem á ákveðin sameiginleg gildi og vinnur með lýðræðislegum hætti að mótun stefnu og ákvörðunum. Og útkljáir ágreining með félagslegum og lýðræðislegum hætti.