Nýr þjóðarpúls Gallup leiðir í ljós ótrúlega stöðu Vinstri hreyfingarinnar –– græns framboðs, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. VG mældist með aðeins 5,1% fylgi í októbermánuði og er aðeins hársbreidd frá því að falla af þingi.
Raunar er staða flokksins svo slæm, að fylgið hefur aldrei mælst lægra í könnunum Gallup frá því flokkurinn var stofnaður árið 1999.
Þetta er þeim mun athyglisverðara, þar sem Vinstri græn leiða ekki aðeins ríkisstjórnina í landinu, heldur hafa áherslur þeirra verið mjög mótandi í stjórnarsamstarfinu. Þannig stöðvaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hvalveiðar með skömmum fyrirvara í sumar, sem frægt varð og stendur nú í mikilli vinnu við breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.
Jafnframt hafa áherslur flokksins ráðið för í orkunýtingarmálum með þeim afleiðingum að lítið sem ekkert hefur verið ráðist í nýjar vatnsaflsvirkjanir hér á landi um árabil.