Flugfélög riða til falls eftir sögulegt bann Trumps við flugi frá Evrópu

Trump Bandaríkjaforseti kom öllum á óvart í nótt er hann lýsti yfir banni við öllum flugi frá Schengen-ríkjum Evrópu til Bandaríkjanna næsta mánuðinn. Bannið tekur gildi frá og með morgundeginum.

Með þessu segist Bandaríkjaforseti sýna ábyrgð í baráttunni við útbreiðslu Kórónaveirunnar, en hann sakar ríki Evrópu hafa brugðist í því að hamla útbreiðslu veirunnar frá Kína á undanförnum vikum.

Í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar sagði forsetinn að bannið gilti í 30 daga og tæki til 26 Evrópulanda — þar á meðal Íslands. Bretland er undanþegið banninu.

Ferðabannið tekur ekki til bandarískra ríkisborgara, en viðbúið er að mörg flugfélög muni fella niður flestar eða allar ferðir sínar frá Evrópu til Bandaríkjanna strax á morgun með stórkostlegum efnahagslegum afleiðingum.

Um er að ræða langstærstu aðgerðir í flugiðnaðinum frá hryðjuverkunum 11. september 2001, en miklu langvinnari og víðtækari að þessu sinni.

Sérfræðingar áætla að fjöldi flugfélaga muni þurfa á neyðaraðstoð að halda strax á næstu dögum, eða leggi einfaldlega upp laupana og fari í þrot. Er þá á það bent, að mörg flugfélög hafa hrunið í verði að undanförnu vegna útbreiðslu Kórónaveirunnar og máttu ekki við fleiru, hvað þá slíku höggi.