Flugfélög sem eru of stór til að falla

Hið heimsþekkta tímarit, The Economist, fjallar um vanda íslensku flugfélaganna, í grein um helgina, sem hér er birt stytt og endursögð.

Hagfræðingar hafa fyrir löngu tekið eftir því að stjórnvöld leyfa sumum fyrirtækjum að verða of stór, á kostnað skattgreiðenda. Því þegar þau stefna í þrot, gætu ríkisstjórnir orðið að koma þeim til bjargar, til að hindra slæmar efnahagslegar afleiðingar í landinu. Hin innifalda ábyrgð skattgreiðenda hvetur til ábyrgðarlauss vaxtar. Þau raka til sín arðinum þegar vel gengur, en þegar harðnar á dalnum fá skattgreiðendur að ábyrgjast reikninginn.

Þekktasta dæmið um þetta var kannski fjármálakreppa áranna 2007-08, þegar ríkissjóður Bandaríkjanna neyddist til að leysa bankakerfið út með 1,7 þúsund milljörðum Bandaríkjadala til að koma í veg fyrir efnahagslegt stórslys. Íslendingum er fall bankanna á sama tíma, og Icesave-deilan í framhaldinu, enn í fersku minni. En í sumum litlum löndum hefur orðið til ný tegund slíkra fyrirtækja sem eru „of stór til að falla,“ en það eru flugfélög.

Fjárhagslegur þrýstingur vegna hækkandi eldsneytisverðs og lækkandi fargjalda hjá flugfélögum er að verða sífellt augljósari. Fyrr í þessum mánuði var Flybe, stærsta svæðisbundna flugfélag Evrópu, selt hópi fjárfesta, leiddum af Virgin Atlantic, fyrir aðeins 2,9 milljónir dollara, verð einnar íbúðar í Vestur-London. Í mánuðinum áður féll Flybmi, annað svæðisbundið flugfélag, og er það nýjasta fórnarlambið í valkesti fallinna flugfélaga sem stækkar. Fyrr í mánuðinum fór Germania á hausinn, á eftir Primera Air í Lettlandi, Kobalt Air á Kýpur, Azur Air í Þýskalandi, Small Planet Airlines í Litháen og SkyWork í Sviss síðasta haust.

En flugiðnaðurinn sem hefur orðið verst úti er á Íslandi. Icelandair og WOW, stærstu flugfélög landsins, flytja fimm af hverjum sex farþegum sem fljúga til og frá Íslandi. Bæði félögin sýna tómar rauðar tölur. Í síðasta mánuði tilkynnti Icelandair um tap upp á 56 milljónir Bandaríkjadala fyrir árið 2018. Á sama tíma er WOW, lággjalda keppinauturinn, í lausafjárkröggum og er að leita að kaupanda.

Óttinn á Íslandi og í öðrum litlum löndum, sem reiða sig á stór flugfélög, er að skattgreiðendur gætu neyðst til að bjarga þeim. Gjaldþrota stoðflugfélög, eins og Alitalia og Air India, hafa lengi verið stolt sinna heimalanda. En fjárhagsleg hlutdeild þeirra í landsframleiðslunni var óveruleg. Það á ekki við um flugfélögin á Íslandi og við Persaflóa. Tekjur Emirates, flaggskips flugs í Dubai, eru nú tíundi af landsframleiðslu landsins og tekjutap vegna ferðamanna sem koma með flugi gæti einnig haft áhrif. Neysla ferðamanna er rúmlega 10% af landsframleiðslu Dubai og sjöttungur á Íslandi.

Gjaldþrot WOW, sem flytur þriðjung flugfarþega landsins, yrði slæm þynnka fyrir Ísland. Ríkisstjórnin telur að fall félagsins gæti þurrkað út 3% af landsframleiðslunni, og er nú að láta vinna neyðaráætlanir, verði það að veruleika. Seðlabankinn hefur verið að kaupa upp gjaldmiðil landsins, sem hefur veikst um sjöttung yfir sl. ár vegna óvissu um stöðu flugfélaganna. Orðið á götunni er að hann gæti endað með að dæla peningum inn í WOW líka.

Von bæði Íslands og Sameinuðu arabísku furstadæmanna (UAE) var að flugið myndi auka stöðugleika í hagkerfunum. Ísland hefur verið háð óstöðugleika ál- og fiskverðs í heiminum, sem eru ennþá þriðjungur útflutnings. Eftir tilraun til að auka fjölbreytni með bankastarfsemi, sem endaði með óskaplegu fjárhagshruni árið 2008, leituðust flugfélögin á Íslandi við að fylla tóm sæti með því að kynna Reykjavík sem ódýran stað fyrir tengiflug milli Ameríku og Evrópu, segir Björn Óli Hauksson, framkvæmdastjóri Isavia, eiganda Keflavíkurflugvallar. Á sama hátt stækkuðu Abu Dhabi, Dubai og Katar ríkisfyrirtækin (Etihad, Emirates og Qatar Airways) á leiðum milli Asíu og Evrópu til að verjast fallandi verði á olíu og gasi, sem voru fram að því aðalútflutningur þeirra.

Uppbygging miðstöðva í flugi varð þess að flugfélögin „settu öll eggin í sömu körfuna,“ segir Lee Ohanian, hagfræðingur hjá UCLA. Landfræðilegur kostur Íslands og Persaflóa-ríkjanna fyrir tengiflug skilaði áður miklum hagnaði. En það er ekki lengur raunin. Nýjar sparneytnar flugvélar, eins og Airbus A321neo og Boeing 787, hafa gert bein flug milli smærri borga ódýrari en tengiflug.

Þrátt fyrir þetta virðast ríkisstjórnir ætla að gefa í varðandi núverandi stefnu. Haldandi að öryggi fáist með stærðarhagkvæmni, virtust stjórnvöld á Íslandi gefa í skyn að Icelandair skyldi taka yfir rekstur WOW og ríkisstjórn UAE hvatti Emirates að gera það sama við Etihad. En nánari skoðun reikninga félaganna hafa sett efasemdir að Icelandair og Emirates. Slíkir samningar gætu valdið enn stærra hruni og ríkisábyrgðum síðar meir.

Skynsamlegri fyrirætlun flugfélaga í erfiðleikum væri að verða hluti af stórri alþjóðlegri flugfélagagrúppu til að draga úr tengslunum á milli efnahags þjóðanna og fjármálum einstakra flugrekenda. Skúli Mogensen, stofnandi WOW, hafði vonast til þess að félaginu yrði bjargað af Indigo Partners, sem er fjárfestingasjóður í einkaeigu og á lággjaldaflugfélög úti um allan heim. En 21. mars sl. komu út skýrslur sem benda til þess að Indigo hafi gengið frá samningaborðinu við WOW. Það eru ekki aðeins slæmar fréttir fyrir ferðamenn sem ætla til Íslands, heldur einnig fyrir skattgreiðendur í landinu.