Margir flugmenn höfðu kvartað yfir Boeing 737 Max 8 þotunum áður en flugvél Ethiopian Airlines hrapaði síðasta sunnudag, en það var annað hrap flugvélar þessarar gerðar á fimm mánuðum.
Gögn flugmálayfirvalda innihalda að minnsta kosti fimm kvartanir sem gerðar voru hjá þarlendum yfirvöldum á undanförnum mánuðum, þar sem einn flugstjóri kallaði flughandbókina „ófullnægjandi og nánast glæpsamlega áfátt“, skv. miðlinum The Dallas Morning News.
Umkvartanirnar voru skráðar hjá flugmálastofnun Bandaríkjanna, sem gerir flugmönnum kleift að tilkynna nafnlaust um flugatvik.
Kvartanirnar snerust um sjálfstýringu kerfisins Max 8, sem hefur verið tekið til athugunar í kjölfar slyssins sl. sunnudag og hraps vélar Lion Air Flight 610 í október sl.
Svartur kassi vélarinnar úr Lion Air hrapinu, hefur gefið til kynna að Flug 610 hafi endurtekið tekið dýfur skömmu eftir að vélin lagði af stað frá flugvellinum í Jakarta í Indónesíu. Rannsakendur hafa ályktað að skynjarar sjálfvirka kerfisins hafi verið bilaðir, en 189 manns fórust með fluginu.
Líkindi eru talin vera á milli beggja slysanna, og Tewolde GebreMariam, forstjóri Ethiopian Airlines, sagði við fréttastofu CNN að líkindin væru „veruleg.“
Erfitt með að stýra flugvélinni
„Hann átti í erfiðleikum með að stýra flugvélinni, svo hann bað um að fá að snúa við til lendingar,“ er haft eftir GebreMariam.
Í einni kvörtun lýsti atvinnuflugmaður vandamálum sem upp komu í flugtaki. Þegar sjálfsstýringin var sett á, fór nef loftfarsins skyndilega niður og setti viðvörunarkerfið af stað, sem gaf frá sér aðvörunina: „Ekki lækka, ekki lækka!“ skv. fréttamiðlinum Politico. Ástandið hafi ekki lagast fyrr en slökkt var á sjálfsstýringu vélarinnar.
Annar flugmaður sem flýgur Max 8 kvartaði í nóvember um það væri „siðlaust“ að flugmenn væru áfram látnir fljúga flugvélunum án frekari þjálfunar eða upplýsinga um hvernig kerfi Max 8 sé frábrugðið fyrri gerðum.
„Sú staðreynd að vélarnar krefjist slíkra ágiskana byggða á dómgreind til að fljúga þeim ætti að klingja viðvörunarbjöllum,“ sagði flugmaðurinn í skýrslunni. „Nú vitum við að kerfin eru ekki gallalaus – flugmenn eru ekki vissir um hvernig kerfin virka, hvað þeir upp á að hlaupa og hvað á að gera ef eitthvað fer úrskeiðis.“