Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, undrast fréttaflutning undanfarinna daga af kynningarfundi ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum á föstudag, þar sem kynnt var 900 milljarða króna átak í innviðauppbyggingu og viðbrögð vegna óveðursins sem gekk yfir landið í byrjun desember.
Bergþór segir athyglisvert að þrír forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi setið fyrir svörum og aðrir tveir ráðherrar verið viðstaddir.
„Þarna var semsé helmingur ráðherra í ríkisstjórninni komu saman, reyndar án hins nýja efnahagsmálaráðherra,“ segir Bergþór og vísar þar til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, sem viðrað hefur eigin áherslur í mikilvægi flýtiframkvæmda og innviðauppbyggingar undanfarna daga og ekki við miklar vinsældir annarra sem sitja við ríkisstjórnarborðið, bætir hann við.
„900 milljarðarnir sem kynntir voru, eru samtala úr framkvæmdaáætlunum hins opinbera til næstu 10 ára, engin viðbót, engin breyting, ekkert átak. Það að samtölunni hafi verið fundinn staður í samantektinni segir ekki annað en að í stýrihópnum var fólk sem kann að leggja saman, en auðvitað er ágætt að talan liggi fyrir,“ segir Bergþór í samtali við Viljann í dag.
„Ég hef enn ekki náð að gera upp við mig hvort sé verra, tilhneiging fyrirsvarsmanna ríkisstjórnarinnar til að þvæla hluti og flækja, sennilega helst til að draga athyglina frá þeim doða sem almennt umlykur sýn þeirra á alvarlega stöðu efnahagsmála um þessar mundir. Eða yfirgripsmikið og djúpt skilningsleysi fréttamanna þegar kemur að því að spyrja gagnrýnna spurninga,“ bætir hann við.
Máli sínu til stuðinings bendir Bergþór á að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi sagt að einkum tvennt standi uppúr varðandi flýtingu framkvæmda, sem í heildina séu um 27 milljarða á 10 árum.
„Annars vegar er það flýting framkvæmda við snjóflóðavarnir og hins vegar lagning jarðstrengja, en þessir tvö markmið hafa verið færð framar í tíma en áætlanir ríkisstjórnarinnar gerður ráð fyrir. Í þessu samhengi verður að halda því til haga að stór hluti flýtingarinnar eru raunverulega fjármunir sem er verið að skila aftur í ofanflóðasjóð, úr ríkissjóði.
Það mikilvægasta sem dregið hefur verið fram í þeirri ágætu samantekt sem stýrihópurinn vann er nauðsyn þess að einfalda leyfisveitingakerfið sem heldur kaldri hendi yfir uppbyggingu kerfis orkuflutninga landið um kring. En þurfti virkilega þetta óveður og vandræðin sem það orsakaði til að opna augu fyrirsvarsmanna ríkisstjórnarinnar? Það er búið að benda á þetta í mörg ár. Kjörtímabilum saman hefur það mátt vera öllum ljóst að regluverkið hamlaði eðlilegri uppbyggingu raforkukerfisins, það er áhyggjuefni að þurfi ástand eins og fólk fékk að kynnast í desember til að ríkisstjórnin sjái hið augljósa. Það er vonandi að útfærslan á breyttu leyfisveitingakerfi komi fram fljótt og verði til bóta, í þeim efnum hræða sporin,“ segir hann ennfremur.
Ekki umtalsvert nýtt fjármagn
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er einnig vikið að átakinu í uppbyggingu innviða og bent á að þegar sé búið að innheimta skatt af landsmönnum vegna ofanflóðavarna.
„Ekki verður þó framhjá því litið að ríkið hefur á liðnum árum sölsað undir sig fé úr ofanflóðasjóði og er þar um verulegar fjárhæðir að ræða og slagar hátt í þá fjárhæð sem nú á að flýta framkvæmdum fyrir næsta áratuginn.
Horft á málin í því samhengi, sem er óhjákvæmilegt, eru fjárhæðirnar sem ætlaðar eru í að flýta framkvæmdum næsta áratuginn ekki umtalsverðar,“ segir þar.