Flýtimeðferð í stefnu Grindvíkings gegn íslenska ríkinu vegna banns við dvöl í bænum

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður, hefur fyrir hönd Stefáns Kristjánssonar, íbúa í Grindavík, höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur íslenska ríkinu með dómsmálaráðherra í fyrirsvari vegna ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á Suðurnesjum með dómkröfum um að staðfesti verði með dómi að stefnanda sé og hafi verið óskylt að hlíta ákvörðun ríkislögreglustjóra frá 13. janúar 2024  um bann við för stefnanda til Grindavíkur og dvöl þar í eigin húsakynnum, sem og húsakynnum fyrirtækis, sem hann er aðaleigandi að, frá og með kl. 19:00 15. janúar 2024.

Stefnandi hefur óskað eftir að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál eftir 123-124. gr. í XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hefur Héraðsdómur Reykjavikur fallist á það.

Í stefnu segir meðal annars:

„Stefnandi er búsettur í Grindavík. Þangað hefur ríkislögreglustjóri bannað íbúum og þeim sem hafa atvinnu þar, að koma og dvelja. Er bannið rökstutt með því að hætta kunni að stafa af jarðhræringum og jafnvel eldgosum sem upp kunni að koma í bænum. Mun vera leitað heimilda fyrir þessu banni í 23. og 24. gr laga nr. 82/2008 um almannavarnir. Þann 10. nóvember 2023 tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvörðun um að rýma Grindavíkurbæ, þar sem stefnandi á lögheimili og var íbúum gert skylt að verða við þeim fyrirmælum. Þá var tekin ákvörðun þann 22. nóvember 2023 þess efnis að heimilt væri fyrir Grindvíkinga að sækja verðmæti og huga að eigum sínum frá 10 til 16 yfir daginn en að rýma ætti bæinn þess á milli. Þegar eldgos hófst þann 18. desember 2023 var tekin ákvörðun um að banna allar ferðir til Grindavíkur. Þann 22. desember 2023 var svo tekin ákvörðun um að opna Grindavík aftur vegna nýs hættumats Veðurstofunnar.

Þann 13. janúar 2024 birtist á vefsíðu Almannavarna (almannavarnir.is) ákvörðun ríkislögreglustjóra um brottflutning íbúa frá Grindavík og bann við allri dvöl og starfsemi þar með vísan til 24. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008. Kom fram í ákvörðuninni að bannið tæki gildi frá og með kl. 19:00 mánudaginn 15. janúar 2024. Var ákvörðunin byggð á niðurstöðu áhættumats almannavarnardeildar um að dvöl í Grindavík þætti óásættanleg út frá öryggi almennings, þar sem margar sprungur lægju um vegi og götur sem aka þyrfti um milli bæjarhluta.

Þann 14. janúar 2024 var Grindavík svo rýmd um miðja nótt og hófst eldgos nærri bænum snemma um morguninn. Hefur Grindvíkingum í raun verið meinaður aðgangur að bænum síðan, en ekki verður séð að gefin hafi verið út skrifleg ákvörðun þess efnis, heldur er ákvörðunin sem tilgreind er í stefnukröfu enn í gildi. Tekur dómkrafa stefnanda því til hennar.

Af hálfu stefnanda hefur verið óskað eftir frekari upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra sem dómkrafa stefnanda beinist að. Við útgáfu stefnu þessarar hafa svör ekki borist. Stefnandi áskilur sér rétt til að leggja fram frekari gögn og tefla fram nýjum málsástæðum til stuðnings dómkröfu sinni á síðari stigum málsins.

__________

Lagarök stefnanda fyrir kröfum sínum eru eftirfarandi:

Í 71. gr. stjórnarskrár er kveðið á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Með vísun til þessa ákvæðis telur stefnandi stjórnvöldum óheimilt að meina mönnum að fara til heimila sinna og starfsstöðva nema að lágmarki sé sýnt fram á að öðrum mönnum stafi hætta af för þeirra þangað. Líklega halda stjórnvöldin því ekki einu sinni fram að slík hætta stafi af heimförinni. Þannig eru ákvæðin í 3. mgr 71. gr. stjórnarskrár um að takmarka megi friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu klárlega bundin við að ógnað sé réttindum annarra, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Stjórnvöldin virðast einungis styðja bann sitt við þörf á að vernda eigendur húsa í Grindavík fyrir sjálfum sér. Til þess hafa þau ekki heimild ef á annað borð verður talið, eins og hér á landi, að borgarar búi almennt við persónulegt frelsi. Stefnandi telur að ofangreindar heimildir laga um almannavarnir hljóti að víkja fyrir ákvæðum stjórnarskrár. Persónulegt frelsi eigendanna heimili þeim m.a. að stofna sjálfum sér í hættu ef einhver hætta er ferðinni á annað borð. Benda má á í framhjáhlaupi að ekkert í settum lögum bannar mönnum t.d. að svipta sjálfa sig lífi ef því er að skipta enda verður engum refsað fyrir þann gjörning.

Stefnandi telur ennfremur að engar forsendur séu einu sinni til að telja að eigendunum eða fjölskyldum þeirra stafi sjálfum hætta af því að fara á heimili sín eða aðrar vistarverur  sínar á staðnum. Sönnunarbyrði um þetta hlýtur að hvíla á stjórnvöldunum sem byggja bann sitt á þessu. Stefnanda er kunnugt um þær hættur sem stjórnvöldin kveðast telja að séu til staðar í Grindavík. Fari hann þangað er honum ljóst að hann ber sjálfur ábyrgð á för sinni.

Jafnvel þó að talið verði að íbúar í Grindavík stofni lífi sínu í verulega hættu með heimför sinni telur stefnandi að stjórnvöld hafi ekki heimild til að banna honum förina, þar sem honum sé kunnugt um viðvaranir stjórnvalda. Svo sem nefnt var er ekki til að dreifa almennri lagareglu sem bannar mönnum að stofna lífi sínu í hættu með ýmis konar starfsemi og gera menn það iðulega án afskipta stjórnvalda svo sem við iðkun alls kyns íþrótta. Má þar t.d. nefna fjallgöngur við hættulegar aðstæður, langsund í köldum sjó, flug úr mikilli hæð með tilbúnum vængjabúnaði, fallhlífarstökk o.m.fl. Stefnandi tekur fram að ef svo ólíklega færi að hann lenti í lífsháska, gerir hann ekki kröfu um að opinberar hjálparsveitir komi honum til bjargar.

Stefnandi telur að þessi réttur hans sé, eins og fyrr segir, varinn af 71. gr. stjórnarskrinnar og gangi því framar reglum í almennum lögum um almannavarnir sem yfirvöldin hafa byggt á ákvarðanir sínar um bann við fastri búsetu í húsum í eigu íbúa á staðnum.

Hér eru á ferðinni spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar. Stefnandi vill hafa nokkur orð um þetta.

Frumeiningar í ríki okkar, sem og annarra þjóða, eru mennirnir sem búa á vettvangi þeirra. Vald ríkisins stafar frá þeim, a.m.k. þar sem lýðræðislegt skipulag ríkir. Það felur í sér að stjórnendur ríkisins sækja vald sitt til fólksins í landinu og bera ábyrgð á meðferð þess gagnvart því. Borgararnir eiga í grunninn að ráða sjálfir eigin málefnum, enda raski þeir ekki hagsmunum annarra við meðferð þeirra. Þrátt fyrir þetta eru dæmi um að ríkið fari með vald í málefnum, sem snúa að borgurum í heild og samskiptum þeirra á milli. Rekstur dómstóla, sem byggist á lögum er dæmi um þetta. Jafnframt getur ríkisvaldið ráðist til sameiginlegra verka sem snerta hagsmuni margra, jafnvel allra borgara. Dæmi um það er vegagerð í landinu og stofnun og rekstur annarra samgöngumannvirkja. Þessi starfsemi ríkisins byggist á settum lögum og raskar ekki stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna.

Sumir handhafar ríkisvalds virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er að dómi stefnanda misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra. Það breytir engu þó að almennir borgarar kunni að vera á sama máli og handhafar ríkisvaldsins um þetta.

Mannréttindaákvæði stjórnarskrár ganga fyrst og fremst út á að vernda menn fyrir öðrum mönnum; ekki bara þeim sem beita aðra menn ofbeldi, heldur líka þeim sem vilja ráðskast með hagsmuni annarra án heimildar þeirra sjálfra.

Þetta er kjarninn í málsástæðum stefnanda fyrir kröfum sínum. Stefnandi getur fallist á að handhafar ríkisvaldsins hafi heimildir til að banna mönnum nýtingu eigna sinna á grundvelli fyrrgreindra ákvæða í lögum um almannavarnir ef nýtingin stofnar öðrum í hættu. Stefnandi telur hins vegar að þessar heimildir víki fyrir 1. mgr. 71. gr stjórnarskrárinnar á þann hátt að slíkar ráðstafanir hafi ekki gildi gagnvart nýtingu manna á eignum sínum nema öðrum stafi hætta af. Vera má að sumir sjái hvorki né skilji takmarkanirnar á valdi ríkisins á þennan veg. Þeir halda þá að handhafar ríkisvaldsins megi fara með vald sitt eins og þeim þóknast. Almennir borgarar hafi ekkert um þetta að segja nema þá kannski á kjördegi. Dómstólum er auðvitað ljóst að málum getur ekki verið háttað á þennan veg.

Stefnandi hefur lögvarða hagsmuni af kröfum sínum. Þar er annars vegar um að ræða stórfellt fjártjón sem hann hefur beðið og mun sýnilega bíða í framtíðinni vegna þessara lokana og svo hitt að þau bönn, sem sett hafa verið fram að þessu, gefa tilefni til að telja að önnur slík bönn kunni að verða endurtekin í framtíðinni. Þá hefur hann beðið stórfellt fjártjón vegna bannsins. Það felist bæði í útgjöldum við að mega ekki nota húsnæði sitt í Grindavík, óhagræðis og annars kostnaðar við að þurfa að hafa búsetu fjarri atvinnustað sínum þar, auk verulegs kostnaðar sem fylgi því fyrir hann að geta ekki haft atvinnutekjur af framleiðslu fiskafurða í fyrirtæki sínu, Einhamar Seafood ehf. sem staðsett er í Grindavík. 

Krafa stefnanda í málinu fellur að hans mati undir 2. mgr. 25. gr laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar er kveðið á um heimild til þess að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar, og að sú heimild gildi án tillits til þess hvort sóknaraðila væri þess í stað unnt að leita dóms sem mætti fullnægja með aðför. Stefnandi hyggst gera skaðabótakröfu, þar sem hann telur sig hafa orðið fyrir fjártjóni vegna ákvörðunar stefnda. Slík krafa kallar á gagnaöflun, m.a. mat dómkvaddra matsmanna um fjárhæð slíks tjóns. Bótakrafan mun auk matsins kalla á frekari gagnaöflun sem taka mun nokkurn tíma og er því ekki unnt að gera kröfuna á þessu stigi. Það er aftur á móti þýðingarmikið að ná fyrst fram viðurkenningarkröfunni, enda aðalatriði fyrir hagsmuni stefnanda að fá skorið úr því hvort ákvörðun stefnda sé lögmæt, og hvort hann hafi þá heimild til þess að ganga óhindrað um eignir sínar í Grindavík, en einnig hvort lagalegur efnislegur grundvöllur sé fyrir slíkri bótakröfu þar sem verja þarf umtalsverðum fjárhæðum í reifun á fjárhæð hennar.“