
Fjármálaeftirlitið setur ofan í við VR og hótanir félagsins í garð Kviku með svari við fyrirspurn Viljans. Forstjóri Kviku staðfestir við Viljann, að ekki standi til að hætta við kaupin á Gamma, eins og formaður VR krafðist í gær að yrði gert, öðrum kosti yrðu 4,2 milljarðar sem félagið er með í stýringu hjá Kviku, færðir annað.
Viljinn sendi fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins í gær um kröfur VR á hendur Kviku vegna Almenna leigufélagsins.
Svarið er svohljóðandi:
„Fjármálaeftirlitið hefur metið Kviku banka hæfan til að fara með yfir 50% eignarhlut í Gamma, sbr. þessa frétt. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum voru kaup Kviku banka á Gamma háð fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Meðan samþykki Samkeppniseftirlitsins liggur ekki fyrir hafa kaupin ekki raungerst og fer Kvika banki því enn ekki með vald hluthafa.
Varðandi ákvarðanir um fjárfestingar einstakra fagfjárfestasjóða þá þurfa þær að vera í samræmi við fjárfestingarstefnu viðkomandi sjóðs og teknar á faglegum grundvelli.“
Þetta þýðir að einstakir fagfjárfestingasjóðir og sjóðsstjórar þeirra geta ekki orðið við tilmælum utanaðkomandi aðila, eins og VR í þessu tilfelli. Þeir verða að vinna í samræmi við eigin fjárfestingastefnu og vinna á faglegum grundvelli, eins og FME orðar það.
Einstakir aðilar með fjármuni í stýringu, þótt öflugir séu, geta með öðrum orðum ekki hagað sér eins og skuggastjórnendur. Það er óheimilt að lögum.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, staðfestir að ekki verði orðið við kröfum VR um að hætta við kaupin á Gamma. Engir fyrirvarar séu í kaupsamningi og málið sé í hefðbundnu ferli hjá Samkeppniseftirlitinu.