Fólk hafi rétt til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Forsætisráðherra kynnti drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði á ríkisstjórnarfundi í morgun. Drögin hafa verið birt í samráðsgáttinni þar sem almenningi og hagsmunaaðilum gefst kostur á að senda inn umsögn við efni frumvarpsins. 

Í frumvarpinu er lagt til að staðfestur verði með lögum réttur einstaklings til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta þar um skilyrðum líkt og núgildandi lög gera. Frumvarpið miðar þannig að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Er þetta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs þar sem segir að ríkisstjórnin vilji koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks.

Í þeim lögum skyldi kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Drög að frumvarpi um kynrænt sjálfræði í samráðsgátt stjórnvalda