Fordæmalaus gagnrýni borgarritara á ónefnda borgarfulltrúa

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins.

„Undanfarna mánuði hafa fáeinir borgarfulltrúar ítrekað vænt starfsfólk Reykjavíkurborgar um óheiðarleika og vegið með ýmsum öðrum hætti að starfsheiðri þeirra. Þetta hefur verið gert beint og óbeint, orðum verið beint að nafngreindum sem og ótilgreindum starfsmönnum, starfsmannahópum, einstaka nefndum og fjallað um einstaka starfsstaði með niðrandi og niðurlægjandi hætti.“

Þetta skrifar Stefán Eiríksson borgarritari (og fv. lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu) á lokað spjallsvæði starfsfólks Reykjavíkurborgar í dag. Starfsfólk Reykjavíkurborgar skiptir þúsundum og fjölmiðlar hafa í dag birt skrif Stefáns sem vekja athygli, því heita má fordæmalaust að embættismaður láti slík ummæli falla um kjörna fulltrúa — án þess að neinn borgarfulltrúi sé beinlínis nefndur á nafn.

Reyndir stjórnmálaskýrendur minnast þess ekki að embættismaður hafi sett fram viðlíka gagnrýni á kjörna fulltrúa.

Stefán er ósáttur við það hvernig tilteknir borgarfulltrúar hafa rætt um starfsfólk Reykjavíkurborgar.

„Gert hefur verið lítið úr störfum hlutaðeigandi, hæðst hefur verið að þeim verkefnum sem viðkomandi starfsmenn sinna, þeir jafnvel vændir um óheiðarleika og hafa í störfum sínum einhvern annan tilgang en að sinna hverju því verkefni sem viðkomandi hefur verið falið af fagmennsku og heiðarleika. Og fáeinir borgarfulltrúar hafa ekki látið þar við sitja heldur jafnframt vegið að einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum sem unnið hafa með eða fyrir Reykjavíkurborg með sama hætti,“ segir Stefán.

Hann segir þessa hegðun, atferli og framkoma þessara fáeinu borgarfulltrúa vera til skammar og um leið til mikils tjóns fyrir Reykjavíkurborg, starfsfólk hennar og íbúa alla.

Nú blasir hins vegar ný staða við

„Tilraunir annarra borgarfulltrúa, einkum innan meirihlutans en einnig úr röðum heiðarlegs stjórnmálafólks innan minnihlutans, til að reyna að hemja þessa skaðlegu, slæmu og fullkomlega ómaklegu hegðun hinna fáu, hafa takmarkaðan árangur borið. Ábendingar til hlutaðeigandi frá siðanefnd Sambands sveitarfélaga um að framganga af þessum tagi brjóti gegn þeim siðareglum sem gilda um kjörna fulltrúa hafa engin áhrif haft,“ segir borgarritarinn ennfremur.

Hvernig er hægt að stöðva tuddann á skólalóðinni?

Hann bætir við að starfsfólk Reykjavíkurborgar hafi hvorki vettvang eða tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér þegar að þeim er sótt á pólitískum vettvangi og í pólitískum tilgangi.

Ráðhús Reykjavíkur í klakaböndum á dögunum. Það er mikil harka í borgarpólitíkinni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Það hefur til þessa getað treyst á heiðarleika þess ágæta fólks sem sóst hefur eftir pólitískum áhrifum innan borgarinnar og að við öll sem störfum í þágu borgarinnar gerum það til að þjóna íbúum hennar eins og best verður á kosið. Jafnframt hefur verið hægt að treysta því að athugasemdir og gagnrýni á okkar störf, sem að sjálfsögðu á rétt á sér, hafi verið sett fram á sanngjarnan og uppbyggilegan hátt. Nú blasir hins vegar ný staða við, þar sem fáir borgarfulltrúar eitra starfsumhverfi starfsfólks Reykjavíkurborgar með fordæmalausri hegðun, atferli og framgöngu eins og að framan greinir.

Og hvað er þá til ráða?

Hvernig er hægt að stöðva tuddann á skólalóðinni?

Þar leikum við öll hlutverk. Við sem verðum vitni að slíku gagnvart samstarfsfólki okkar eigum að láta vita og gera athugasemdir við slíka hegðun. Það eru ýmsar leiðir til þess og við eigum ekki að þurfa að óttast um störf okkar eða starfsumhverfi ef við gerum slíkt. Við sem verðum fyrir slíkum árásum höfum einnig fullt leyfi til að gera athugasemdir við þessa hegðun og koma þeim á framfæri og í frekari skoðun og úrvinnslu hjá t.d. okkar yfirmanni.

Það er nefnilega ekki allt í boði í pólitískum tilgangi. Það er ekki í boði að ráðast með ómaklegum hætti gegn starfsfólki sem er að sinna störfum sínum af heiðarleika og fagmennsku. Það er ekki í boði að gera lítið úr störfum fólks og grafa þannig undan starfsánægju og starfsöryggi okkar. Það er heldur ekki í boði að bregðast ekki við þegar slíkar ómaklegar og óheiðarlegar árásir eru gerðar á starfsfólk Reykjavíkurborgar. Það er nefnilega komið nóg,“ skrifar Stefán Eiríksson ennfremur.