Fordæmalaus loforð: Hlýtur að koma til umræðu í nefndinni fyrir undirritun

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Bergþór Ólason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segist ganga út frá því að samkomulag ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu í samgöngum, borgarlínu og vegatolla komi til umræðu í nefndinni áður en gengið verður frá því með undirritun.

Skýrt hefur verið frá því að skrifað verði undir samkomulagið nú á fimmtudag, en nokkrum sinnum hefur þurft að fresta því að ganga frá því þar sem enn er tekist á um útfærslur á bak við tjöldin. Samkvæmt heimildum Viljans eru engin fordæmi fyrir því að stjórnvöld heiti því að ráðstafa svo miklum fjárhæðum, jafnvel á þriðja hundrað milljarða króna ef Sundabraut er talin með, án þess að heimild sé fyrir því í fjárlögum eða fjármálaáætlun ríkisins sem samþykkt hafi verið á Alþingi.

Í drögum að samkomulaginu, sem skrifa átti undir í síðustu viku, var ekki stafkrókur um Sundabraut og bar Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra því við að það væri vegna þess að hún ætti alfarið að vera einkaframkvæmd. Í seinni drögum hefur málgrein um Sundabrautina verið bætt inn og er nú gert ráð fyrir að framkvæmdum við hana geti verið lokið fyrir árið 2030, eða eftir ellefu ár. Sumar framkvæmdir og fjárútlát í samkomulaginu taka til næstu fimmtán ára.

Bergþór segir því vart verða trúað að þar til í þessari viku hafi staðið til að ganga frá samkomulaginu án þess að þar væri minnst einu orði á Sundabraut.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis og samgöngunefndar.

„Ég hlakka til að heyra útskýringar samgönguráðherra,“ segir hann um það efni.

Bergþór bendir á að samgönguráðherra vinni væntanlega á grundvelli málsgreinar í gildandi samgönguáætlun, þar sem segir:

2.1.22 Unnið verði að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögð verði áhersla á nauðsynlegar úrbætur í núverandi almenningssamgöngum, uppbyggingu og rekstur hágæða almenningssamgangna, úrbætur á stofnvegum og gerð hjóla- og göngustíga.

Um þetta segir Bergþór í samtali við Viljann:

„Ég held að engum sem samþykkti þennan texta hafi komið til hugar að ráðherra myndi á grundvelli þessa markmiðs í samgönguáætlun skuldbinda ríkissjóð án frekari aðkomu Alþingis. Ég reikna með að það verði óskað eftir yfirferð ráðherra fyrir umhverfis- og samgöngunefnd, áður en til undirritunar kemur. Og það getur ekki annað verið en að samningurinn verði gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis.“