Formaður VR segist sannfærður um stuðning við átök og verkföll

Formenn VR og Eflingar/ Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Aðgerðaplan verkalýðshreyfinganna á eftir að vekja mikla athygli, sögðu Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Ragnar Ingólfsson, formaður VR, m.a. eftir að upp úr samningaviðræðum verkalýðsfélaganna við Samtök atvinnulífsins slitnaði hjá Ríkissáttasemjara í dag.

Þau fullyrtu jafnrframt að félögin stæðu þétt saman í öllum aðgerðum sínum,en vildu ekki gefa upp nánar í hverju aðgerðaplanið fælist.

Sólveig Anna sagði að viðræðuslitin við Samtök atvinnulífsins kæmi viðræðum félaganna við ríkið ekkert við. Ragnar sagði að það stefndi í átök og verkföll, og kvaðst sannfærður um að það hlyti stuðning félagsmanna. Ragnar áréttaði að árið 2015 hafi t.d. þurft boðun allsherjarverkfalls, til að ná mönnum að samningaborðinu.

Viljinn spurði Ragnar hvort hann hefði ekki áhyggjur af innistæðilausum launahækkunum hjá smærri fyrirtækjum, sem eru um 95% allra fyrirtækja á landinu, en miklar launahækkanir gætu kippt undan þeim rekstrargrundvelli og þar með fækkað störfum.

Frá upphafi fundar í Karphúsinu í dag. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

„Við höfum verið að greina stöðu lítilla og stórra fyrirtækja, ársreikninga og atvinnulífsins almennt. Afkoma átján stærstu fyrirtækjanna í Kauphöll Íslands, afkomu bankanna og lítilla, stórra og meðalstórra fyrirtækja. Sum fyrirtæki standa tæpt, önnur standa mjög vel, þannig hefur það alltaf verið,“ segir Ragnar og bendir á að fyrirtækin séu ekkert á verri stað en fyrir samningana árið 2015 og segir tilboðið frá Samtökum atvinnulífsins nú, sem hann kallar „svívirðilegt“ fela í sér kaupmáttarrýrnun fyrir sína félagsmenn og ekki sé þörf á að leggja það í dóm sinna félagsmanna.

Spurður hvort hann hefði gert ráð fyrir möguleikanum á að launahækkanirnar færu beint út í verðlag sem æti upp launahækkanir, þar sem að það væru launamenn sem búa til vörur og þjónustu, sagði Ragnar: „Við viljum nálgast þetta þannig að reyna að tryggja með bestum hætti að kaupmáttur haldi sér. Við eru að skoða ákveðna fyrirvara sem við viljum setja í okkar samning, svo að ekki verði hægt að kasta öllum kostnaði út í verðlag.“

„Við lýstum því sjónarmiði okkar, að grundvöllur kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins, við alla okkar viðsemjendur, væri að skapa skilyrði til vaxtalækkunar Seðlabanka Íslands, stuðla að jákvæðri þróun kaupmáttar og koma í veg fyrir verðhækkanir og atvinnuleysi,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins við fréttamenn eftir fundinn.