Formaður VR þakkar Miðflokknum staðfestuna og biður um frestun 3O

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„Ég sendi baráttukveðjur til þeirra þingmanna sem standa vaktina fyrir mig og börnin mín, dag og nótt, við algjörlega óviðunandi og ómannúðlegar aðstæður, á vinnutíma sem varla getur talist boðlegur í nútíma samfélagi, í því að koma í veg fyrir að 3. Orkupakkinn verði samþykktur. Ég vil koma á framfæri þakklæti fyrir staðfestu þeirra í þessu máli sem varðar svo mikla hagsmuni fyrir þjóðina og afkomendur okkar.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í færslu sem birtist á fésbókinni nú undir hádegið.

„Ég skora jafnframt á ríkisstjórnina að fresta málinu fram á haust og bið um að þjóðin fái andrými til að kynna sér málið betur.

Við kjósendur hljótum að geta gert þá kröfu þegar svo stór og umdeild mál, er snúa að auðlindum þjóðarinnar og grunnstoðum samfélagsins, eru til umfjöllunar og hafa ekki fengið efnislega umræðu í aðdraganda kosninga.

Okkur getur varla legið svo mikið á að ekki megi slá þessu á frest til haustsins,“ segir formaður VR ennfremur.