Forsætisnefnd Alþingis, skipuð 7. og 8. varaforseta, sem hefur haft til umfjöllunar erindi átta þingmanna, dags. 3. desember 2018, um meint brot þingmannanna Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Karls Gauta Hjaltasonar, Ólafs Ísleifssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á siðareglum fyrir alþingismenn, vegna ummæla þeirra á veitingastofunni Klaustri 20. nóvember 2018 og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn, hefur á fundi sínum í dag, 1. ágúst 2019, lokið meðferð sinni á málinu með áliti. Það er niðurstaða forsætisnefndar, sbr. 3. mgr. 18. gr. siðareglna fyrir alþingismenn, að fallast beri á mat siðanefndar frá 5. júlí 2019.
Eins og kunnugt er var það niðurstaða ráðgefandi siðanefndar í áliti frá 25. mars 2019 að hátterni þingmannanna sex á veitingastofunni Klaustri félli undir gildissvið siðareglna fyrir alþingismenn. Með bréfum til þingmannanna sex, hvers um sig, 15. apríl 2019 tilkynnti forsætisnefnd að hún teldi rétt að leggja niðurstöðu siðanefndarinnar til grundvallar við framhald málsins. Í bréfunum var hátterni hvers þingmanns um sig afmarkað og þeim veittur kostur á að setja fram athugasemdir við grundvöll málsins.
Með bréfi, dags. 13. maí 2019, til siðanefndar Alþingis ákvað forsætisnefnd að óska eftir að nefndin léti í té ráðgefandi álit sitt á því hvort þingmennirnir sex hefðu, hver um sig, brotið gegn siðareglum fyrir alþingismenn eins og hátterni þeirra hefði verið afmarkað í bréfum frá 15. apríl 2019 og að teknu tilliti til athugasemda þingmannanna sem þá höfðu borist.
Þann 5. júlí sl. barst forsætisnefnd álit ráðgefandi siðanefndar . Niðurstaða siðanefndar er að þingmennirnir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson hafi brotið gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Ekki var talið að þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu gerst brotleg við siðareglurnar. Þann 8. júlí sl. gaf forsætisnefndin þingmönnunum kost á að bregðast við áliti siðanefndar og bárust andmæli þeirra 26. júlí sl.