Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aftók á Alþingi í dag að til standi að selja eignarhluti ríkisins í Landsbankanum. Sagði hún það skýra afstöðu sína og síns flokks að slíkt yrði ekki gert, en fjármálaráðherra sagði í færslu á Facebook í gærkvöldi að kaup Landsbankans á Tryggingamiðstöðinni (TM Tryggingum) yrðu ekki gerð með hennar samþykki nema Landsbankinn yrði einkavæddur samhliða.
„Ég vil segja að það er algjörlega skýrt af minni hálfu að ég mun ekki taka þátt í því að selja hluti í Landsbankanum,“ sagði forsætisráðherra sem fékk einar fjórar fyrirspurnir um málið á þingfundi í dag. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírötum, Inga Sæland formaður Flokks fólksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurðu Katrínu út í kaup Landsbankans á TM og ekki síður ummæli fjármálaráðherrans.
Sigmundur Davíð sagði fjármálaráðherrann hafa stillt samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn upp við vegg. Kristrún sagði atburðarásina alla sýna stjórnleysið í landinu og Inga Sæland tengdi ákvörðun Landsbankans við nýgerða kjarasamninga.
Forsætisráðherra sagði að ákvörðun stjórnar Landsbankans hefði ekki verið borin undir Bankasýsluna, sem þó ætti að gera í meiriháttar tilfellum og taldi hún ljóst að það verði gert á næstu dögum. Minnti hún á armslengdarsjónarmið um afskipti stjórnmálamanna af rekstri fjármálafyrirtækja, en lagði áherslu á að fylgt væri leikreglum sem í gildi eru.