„Fjölgun kórónuveirusmita undanfarna daga og vikur er áhyggjuefni. Tölur dagsins eru sláandi en meirihluti þeirra smita sem greindust í gær voru ekki í sóttkví sem segir okkur að smitin eru útbreidd. Þessi er því miður staðan víða um heim og það verður ekki komist hjá því að grípa til hertra aðgerða til að sporna gegn fjölgun smita, ekki síst þar sem nú er hætta á að fjölgun smita sé að færast úr línulegum vexti í veldisvöxt.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu á Facebook nú í kvöld þegar heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir og takmarkanir vegna þriðju bylgju veirufaraldursins.
„Stóru línurnar eru auknar fjöldatakmarkanir þar sem almennt verður miðað við 20 manna hámark en þó með skilgreindum undantekningum. Einnig verður gripið til lokana á skemmtistöðum, krám, spilasölum og líkamsræktarstöðvum.
Heilbrigðisráðherra mun birta auglýsingu um þessar ráðstafanir á morgun og munu þær gilda í tvær vikur. Þetta eru íþyngjandi aðgerðir sem munu hafa áhrif á líf okkar allra en ég er bjartsýn á að þetta muni duga til til að ná stjórn á faraldrinum hér á landi. Ég hvet okkur öll til að gera okkar besta til að það megi takast,“ segir forsætisráðherra.