Forsætisráðherra hjó á hnútinn og orkupakka frestað um óákveðinn tíma

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis að baki henni. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Störukeppninni millum þingmanna Miðflokksins og forseta Alþingis um innleiðingu þriðja orkupakkans lauk í morgun í bili að minnsta kosti, með því að ákveðið var að fresta umræðunni um óákveðinn tíma og taka önnur mál sem beðið hafa afgreiðslu á dagskrá. Forseti Alþingis átti í morgun fundi með formönnum þingflokka annars vegar og formönnum flokkanna hins vegar og er þessi niðurstaðan. Samkvæmt heimildum Viljans beitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sér fyrir þessari ráðstöfun, þar eð þingið hefur verið í pattstöðu í hálfa mánuð vegna langra ræðna þingmanna Miðflokksins um orkupakkann.

Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Flokks fólksins lögðu til á miðvikudag að orkupakkinn yrði tekinn af dagskrá þingsins í bili svo afgreiða mætti ótal önnur mál sem tilbúin eru.

Fram til þessa hefur verið skýrt af hálfu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, að þingmenn Miðflokksins hefðu ekki dagskrárvaldið í þinginu og gætu ekki tekið einstök mál í gíslingu með málþófi.

Þingmenn samþykktu með atkvæðagreiðslu við upphaf þingfundar í morgun, að fundur geti staðið lengur í kvöld en til kl. 20.

Formenn þingflokka munu eiga áframhaldandi samtöl með sér í dag í samráði við forystu sinna flokka í því skyni að reyna að ná samningum um þinglok og hvaða mál skulu afgreidd og hver ekki.