Forsætisráðherra og Vinstri græn fagna afmælum sínum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna á afmæli í dag, hún er 43 ára gömul. Hún minnist þess einnig, að um næstu helgi fagna Vinstri græn tuttugu ára afmæli sínu sem stjórnmálaflokkur, en hún hefur — þrátt fyrir ungan aldur — verið formaður ungliðahreyfingar flokksins, varaformaður eða formaður flokksins nær samfellt frá stofnun.

„Nýtt hár, sama stelpan. Hvað hefur gerst á 20 árum?“ segir Katrín á fésbókarsíðu sinni í tilefni dagsins og bendir á að Vinstri græn muni fagna 20 ára afmælinu sínu þann 9. febrúar næstkomandi.

Á Twitter skýrir forsætisráðherra svo frá því að eiginmaður hennar, Gunnar Sigvaldason, sem heldur með Manchester United, hafi gefið henni Liverpool-trefil í afmælisgjöf, en því liði fylgir hún að málum.

Ástin sigrar allt, segir forsætisráðherra, en sem kunnugt er, eru litlir kærleikar millum þessara erkifjenda í ensku knattspyrnunni.

Viljinn óskar forsætisráðherra til hamingju með daginn.