Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst styðja þá ákvörðun Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, að segja af sér og stíga til hliðar svo unnt sé að bregðast við niðurstöðum Mannréttindadómstóls Evrópu frá í gær um skipan dómara við Landsrétt.
Hún segir að Sigríður hafi tekið rétta ákvörðun og staðfesti að hún hefði átt samtal við dómsmálaráðherra í gær, þar sem hún hefði lýst áhyggjum af þeirri stöðu sem upp væri komin.
Nauðsynlegt væri að skapa vinnufrið upp á framhaldið og vildi hún ekkert segja hvort Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórnina.
Katrín undirstrikaði að dómur MDE væri fordæmalaus og því væri eðlilegt að áfrýja honum til að eyða réttaróvissu. Hún sagðist vera búin að kalla eftir sérfræðiáliti um málið og brýnt væri að skoða það vandlega hver næstu skref verða.