Forsendur samstarfs meirihlutans brostnar

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 og fimm ára áætlun 2020-2024 er til umræðu í borgarstjórn í dag. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að áætlunin sýni að skuldir hækki stöðugt þvert á það sem standi í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að skuldir skuli greiddar niður á meðan efnahagsástandið sé gott.  

Hann bendir á að áætlunin geri ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar muni hækka verulega frá þeirri áætlun sem gerð var fyrir kosningarnar 2018 og sé nú gert ráð fyrir að skuldir verði 64 milljörðum hærri árið 2022.

„Forsendur meirihlutasáttmálans eru því brostnar,“ segir Eyþór og vísar til þess að Viðreisn hafi viljað rétta við fjárhag Reykjavíkurborgar og heitið því að safna ekki skuldum.

„Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur leggur til að þessari þróun verði snúið við með því að selja Gagnaveitu Reykjavíkur og að söluandvirðið verði nýtt til að lækka skuldir og fjármagnskostnað í samstæðu Reykjavíkurborgar. Þá leggjum við til að Malbikunarstöðin Höfði verði seld og að hagrætt verði í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar um 5%,“ segir Eyþór.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu leggja til fjölda tillagna í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar,  m.a. að arðgreiðslum frá Orkuveitu Reykjavíkur verði ráðstafað til útsvarslækkana og að jöfn fjárframlög úr borgarsjóði verði greidd með börnum í grunn- og leikskólum borgarinnar, óháð rekstrarformi. Enn fremur að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði fari úr 1,65% í 1,60% og að viðmiðunartekjur hækki til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega. Þá munu borgarfulltrúar flokksins aukinheldur leggja til að farið verði í rekstrarútboð fyrir þrjú af þeim sjö bílastæðahúsum sem Reykjavíkurborg rekur í dag og að skoðað verði að bjóða út rekstur sorphirðu í borginni í þeirri viðleitni að lækka kostnað við sorphirðu.