Forseti Alþingis gagnrýndur: Enn ósamið um þinglok en orkupakka frestað

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Enn er ósamið um þinglok og gerðu þingmenn stjórnarandstöðunnar harða atlögu að forseta Alþingis við upphaf þingfundar í morgun. Eftir ríflega fjögurra klukkustunda framhaldsumræðu um þriðja orkupakkann í gær var þingfundi frestað og undir miðnætti í gær var gefin út dagskrá þingfundar í dag þar sem orkupakkinn er kominn aftar á dagskrá.

Á máli þingmanna í morgun mátti skilja að formenn flokkanna reyna um þessar mundir að komast að samkomulagi um þinglok — hvaða málum verði frestað og hver keyrð í gegn á lokametrunum. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, leggur áherslu á að afgreiðslu orkupakkans verði frestað fram á haust. Aðrir forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa neitað að koma að slíku samkomulagi og segja það verða að vera millum ríkisstjórnarinnar og Miðflokksins, en krefjast þess að stjórnarfrumvörp á borð við Þjóðarsjóð og breytingar á lögum um Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið verði látin bíða.

Þingmenn Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins og Viðreisnar gagnrýndu Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, harðlega fyrir samráðsleysi og segja greinilegt að búið sé að semja við Miðflokkinn um frestun orkupakkans, en alveg sé ósamið um önnur mál.