Forseti Alþingis og fleiri í forsætisnefnd segja sig frá afgreiðslu til siðanefndar

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Uppnám er í forsætisnefnd Alþingis vegna Klaustursmálsins. Málum þeirra þingmanna sem því tengjast hefur enn ekki verið vísað til siðanefndar þingsins og nú hafa þrír nefndarmanna, hið minnsta, sagt sig frá málinu vegna vanhæfis eftir að fjórir þingmenn Miðflokksins kröfðust þess. Aðrir forsætisnefndarmenn eru að íhuga stöðu sína.

Þau Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti og Þórunn Egilsdóttir, 4. varaforseti, hafa öll lýst sig vanhæf eftir að fjórir þingmenn Miðflokksins mótmæltu hæfi nefndarmanna.

Þingmenn Miðflokksins segja engan nefndarmanna forsætisnefndar og engan áheyrnarfulltrúa hæfan til meðferðar málsins. Margir úr nefndinni hafi talað með fordómum og sleggjudómum í þeirra garð.

Samkvæmt heimildum Viljans eru fleiri úr forsætisnefnd að hugsa sína stöðu vegna málsins, þar sem þeir eru annað hvort pólitískir samherjar eða andstæðingar umræddra þingmanna.

Það flækir málið að engir varamenn eru í forsætisnefnd og því geta aðrir þingmenn ekki tekið sæti þeirra sem hafa sagt sig frá málinu til þess að afgreiða það.