Forseti borgarstjórnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, hefur hafnað beiðni aðal- og varaborgarfulltrúa Miðflokksins um aukafund í forsætisnefnd, þar sem ræða á ásakanir í hennar garð. Höfðu þau Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi og Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi farið fram á að Dóra Björt viki sæti á fundinum.
Baldur segir í samtali við Viljann, að hér sé ekkert annað en valdníðsla á ferð. Beiðninni um aukafund sé hafnað af sömu manneskju og hafi slitið fundi fyrirvaralaust á dögunum þegar komið var að afgreiðslu tveggja mála Miðflokksins sem lutu að óásættanlegri framgöngu hennar og ósannindum opinberlega.
Hann segir að enn dekkist myndbirting stjórnarhátta í ráðhúsinu, forseti borgarstjórnar taki þarna fordæmalausa ákvörðun í krafti embættis síns:
„Lýðræði? Hvað er það? Gegnsæi? Hvað er það? Máli þessu er fjarri því lokið, því auðvitað er slík afgreiðsla með öllu óásættanleg,“ segir Baldur.