Forseti Íslands og biskup Íslands áttu í gær fundi með fulltrúum Evrópuráðs múslima, European Muslim Forum, sem eru í heimsókn hér á landi. Er þetta í fyrsta sinn sem biskupinn yfir Íslandi heimsækir mosku hér á landi.
Í stuttri tilkynningu á vef forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, segir að á fundinum hafi m.a. verið rætt um gildi gagnkvæmrar virðingar og umburðarlyndis og það hvernig trúarbrögð geta stuðlað að friði í heiminum.
„Einnig var vikið að grundvallarmannréttindum, ekki síst trúfrelsi og jafnrétti kynjanna,“ en það ekki útskýrt frekar.
þetta mun þó vera í fyrsta sinn sem biskup sækir heim eina af moskunum hér á landi.
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, þáði að sitja fund með fulltrúum European Muslim Forum og gestgjöfunum í Stofnun múslima á Íslandi í gamla Ýmishúsinu við Skógarhlíð í gær, þar sem hryðjuverkaárásin í Nýja Sjálandi var sérstaklega til umræðu.
„Þjóðkirkjan hefur í áraraðir átt í góðu samstarfi við öll fimm félög múslima hér á landi og hafa forystumenn og fulltrúar þeirra allra sótt hana heim við ýmis tækifæri m.a. á þvertrúarlegum samverum. Biskup Íslands hefur sömuleiðis tekið þátt í samverum sem ýmsir múslimar hafa skipulagt með þjóðkirkjunni og flutt erindi á a.m.k. einu málþingi sem eitt félagið skipulagði fyrir nokkrum árum en þetta mun þó vera í fyrsta sinn sem biskup sækir heim eina af moskunum hér á landi.

Þessi jákvæðu samskipti milli þjóðkirkjunnar og trúfélaga múslima í landinu eru gríðarlega mikilvæg og vona ég svo gjarnan að biskup eigi eftir að geta heimsótt hin félög þeirra sömuleiðis,“ segir Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur á fésbókarsíðu sinni, en hann var í föruneyti biskups á fundinum.
„Hinn hræðilegi harmleikur í Christchurch á Nýja-Sjálandi hefur vakið fólk til umhugsunar um mikilvægi friðar í samfélagi okkar og aðgerða til að við getum lifað í friðsömum heimi. Kristið fólk og múslimar standa saman og sýna þannig að við erum á móti hvers konar ofbeldi. Eitt af gildum múslima sem skráð eru á veggspjald í moskunni þeirra er að þeir vilji vera góðir samfélagsþegnar og lifa í friði og sátt við samferðafólk sitt. Kristið fólk deilir þessum sama hugsunarhætti. Samtalið er lykillinn að lausn allra mála. Með samtali vex skilningur og samheldni og löngunin til að gera gott samfélag betra,“ segir biskup Íslands í færslu á fésbókinni.