Forseti Íslands rannsakaði afgreiðslu Alþingis og fann ekkert athugavert

Eitt af þeim atriðum sem gagnrýnt var harkalega varðandi skipun dómara Landsréttar í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, var atkvæðagreiðslan um skipan þeirra, sem fram fór á Alþingi þann 1. júní 2017.

Eftir atkvæðagreiðsluna, höfðu heyrst efasemdir og ásakanir, bæði opinberlega, frá löglærðum og frá þingmanni Pírata, Jóni Þór Ólafssyni, um að ekki hefði verið að henni staðið í samræmi við bráðabirgðaákvæði dómstólalaga, þar sem segir meðal annars: 

„Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin …“

Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, fannst því tilefni til að kynna sér afgreiðslu málsins nánar, áður en hann tæki skipunarbréf dómaranna til undirritunar, en frá þessu greindi hann í yfirlýsingu sem hann gaf út þann 8. júní 2017.

Forsetinn aflaði gagna og komst að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar 1. júní, og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp. Voru málavextir raktir í yfirlýsingu forsetans.

„Ég fól forsetaritara að afla upplýsinga frá skrifstofu Alþingis um tilhögun atkvæðagreiðslunnar, aðdraganda hennar og umræður á undirbúningsfundum þingmanna, með hliðsjón af áðurnefndu bráðabirgðaákvæði dómstólalaga og ákvæðum þingskapa um atkvæðagreiðslur,“ sagð m.a. í yfirlýsingu forseta Íslands.

Ráðherra lagði til atkvæðagreiðslu um hvern og einn dómara

Ítarleg greinargerð skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódussonar, f.h. skrifstofu Alþingis, barst forsetanum og þar kom m.a. fram að dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði fyrir Alþingi tillögur um 15 dómara, lögum samkvæmt.

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram þingskjal nr. 1023, um að eftir þeim tillögum ráðherra yrði farið. Í þingskjalinu var gerð tillaga um hvern dómara, í tölusettum liðum frá 1-15, svo atkvæðagreiðsla gæti farið fram um hvern og einn þeirra.

Í samtölum forseta Alþingis, Unnar Brá Konráðsdóttur, við formenn og forystufólk þingflokka um undirbúning atkvæðagreiðslunnar kom fram, að þingmenn flokkanna hefðu allir ákveðið að greiða atkvæði með sama hætti um hvern einstakling í töluliðum 1-15 á þingskjalinu. 

Við upphaf atkvæðagreiðslunnar mælti forseti Alþingis svo:

„Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þ.skj. 1023 er tillaga um að Alþingi álykti að samþykkja 15 tillögur dómsmálaráðherra um skipun 15 manna til að vera dómarar við Landsrétt. Tillagan í 15 töluliðum verður borin upp í heild ef enginn hreyfir andmælum við því.“

Enginn ágreiningur um þingvenju og enginn hreyfði andmælum

Enginn ágreiningur er um þá þingvenju, sem styðst við ýmis ákvæði þingskapa, að teknir séu saman töluliðir eða greinar þingskjala þegar fyrir liggi að þingmenn muni greiða eins atkvæði um þá alla eða þær allar. Fyrir liggur að enginn hreyfði andmælum við því á þingfundi eða við undirbúning atkvæðagreiðslunnar, að greidd yrðu atkvæði í einu lagi um alla 15 töluliði þingskjalsins. Alþingi samþykkti hvern þeirra í einni atkvæðagreiðslu með 31 atkvæði gegn 22. Átta þingmenn greiddu ekki atkvæði og tveir voru fjarstaddir. 

Í greinargerð skrifstofu Alþingis um þessa atburðarás, atkvæðagreiðsluna sjálfa og aðdraganda hennar, segir svo: „Engin athugasemd kom fram um að tillögurnar yrðu bornar upp í heild, engin ósk um uppskiptingu á tillögu nefndarinnar í atkvæðagreiðslunni eins og þó oft er gert. Við því mátti t.d. búast að óskað yrði sérstakrar atkvæðagreiðslu um þá fjóra sem á skjalinu voru en ekki var gerð tillaga um í niðurstöðum dómnefndar, en svo varð ekki.“

Atkvæðagreiðslan í samræmi við þingsköp ásamt því að virða kröfu dómstólalaga

„Niðurstaða skrifstofunnar er því sú að atkvæðagreiðslan sé fyllilega lögmæt og í samræmi við lögbundna og venjubundna afgreiðsluhætti Alþingis, svo svarað sé beint erindi skrifstofu forseta Íslands.

Meginhugmynd og krafa í fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði dómstólalaga er að Alþingi geti tekið afstöðu til hvers dómaraefnis, hafnað einstökum tillögum ráðherra, en standi ekki frammi fyrir þeim kosti að samþykkja allar tillögurnar eða hafna öllum. Við afgreiðslu málsins á Alþingi er þessi hugmynd virt, frágangi málsins á þingskjali og atkvæðagreiðslu hagað þannig að við þeirri kröfu dómstólalaga mætti verða.