Forsetinn segir sjálfsagt að ræða ákvæði stjórnarskrár um þjóðkirkjuna

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

„Mig langar til að fjalla aðeins um von og trú, samfélag og trúarbrögð. Því
hingað er maður kominn að ræða siðferðislegar áskoranir, og hingað er maður kominn í boði siðrænna húmanista sem leggja áherslu á siðræn gildi og þekkingarleit án vísana í yfirnáttúrleg fyrirbrigði. Auk þess má geta þess að gestgjafarnir, hinir siðrænu húmanistar, fara fram á aðskilnað ríkis og kirkju, þeir vilja ekki að farið sé í kirkju við setningu Alþingis og því síður að í stjórnarskrá sé kveðið á um það, eins og nú er gert, að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, þjóðkirkja sem ríkisvaldið skuli að því leyti styðja og vernda.“

Þetta var meðal þess sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í erindi sem hann hélt á ráðstefnu Siðmenntar, félags siðrænna húmanista, sem fram fór í Reykjavík á laugardag.

Forsetinn benti á, að í sömu stjórnarskrá sé fullt trúfrelsi varið og tryggt.

„Hér á Íslandi eiga íbúar landsins að geta iðkað sína trú, eða aðhyllst enga trú. Jafnrétti er varið í okkar grunnlögum, fjölbreytni og frelsi: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum,“ segir í stjórnarskránni, „og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Þessi réttindi eru borgurum landsins tryggð, þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði
um þjóðkirkju og stuðning ríkisvaldsins við hana. Ekki er að furða að þetta hefur vakið athygli og í raun sjálfsagt að fólk ræði um kosti og galla þessa
fyrirkomulags. Í því ljósi hlýtur upplýst og fordómalaus umræða að teljast til góðs,“ bætti hann við.