Forstjóri Tesla kindarlegur á nýrri mynd

Forstjóri Tesla, Elon Musk, hefur gert feitan sauð að prófílmynd af sjálfum sér á Twitter. Málið hefur vakið talsverða undrun og kátínu netverja um heim allan í gær og í dag.

Enska sveitasafnið (e. The Museum of English Rural Life) er eigandi myndarinnar, sem er tekin í Devon-skíri árið 1962 og sýnir afar stæðilegan Exmoor hyrndan hrút. Þetta gerði forstjórinn í óleyfi og brást safnið ókvæða við með því að breyta sinni prófílmynd í Elon Musk á móti.

Jafnframt breytti safnið nafni sínu á Twitter í „The Muskeum of Elongish Rural Life.“

Bæði Musk og Enska sveitasafnið eru hvort í sínu lagi þekkt fyrir fíflagang á Netinu, og hafa ýmsir haft gaman af skætingnum sem hefur spunnist út frá þessu uppátæki.

Musk hefur m.a. notað tækifærið til að þakka viðskiptavinum Tesla sem hafa tekið þátt í gríninu.

Myndin af sauðnum hafði þegar vakið talsverða aðdáun á Twitter, þar sem hún var fyrst birt af safninu fyrir um ári síðan með orðunum „sjáið þetta algera eintak“ (e. look at this absolute unit), en það eru hrósyrði á netinu yfir afburða hlunka, eða vel gerð og stæðileg eintök manna og dýra.

Safnið útskýrir á heimasíðu sinni söguna á bakvið hinn myndarlega sauð, en hann var niðurstaða tilrauna enskra bænda til að rækta harðgert, hárprútt og kjötmikið sauðfé, eða eins og netverjar orða það svo vel, hið algera eintak.