Förum ekki framúr sjálfum okkur og öllum öðrum

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

„Löggjafinn er nokkuð afkastamikill þegur kemur að því að firra okkur sjálf allri ábyrgð og gengur svo langt að telja það sérstök frelsismál. Nýjasta í þeim efnum er frumvarp um þungunarrof,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á fésbókinni um hið umdeilda frumvarp heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar.

„Samkvæmt frumvarpinu er það kvenfrelsismál að konan ein geti tekið ákvörðun um að eyða fóstrinu fram að 22 viku meðgöngu. Gleymist þá að fóstur njóta verndar í lögum og réttinda. Hef ég áður nefnt að fóstur nýtur refsiverndar í hegningarlögum og erfðarétt svo dæmi séu tekin. Því er fráleitt að líta svo á að fóstureyðing fram að 22 viku snúi eingöngu að frelsi kvenna og ákvörðunarétti þeirra.

Við þurfum að ræða þetta mál einnig út frá rétti fósturs og hvenær á meðgöngu getum við talað um fóstureyðingu og hvenær þungunarrof.

Las grein eftir Ebbu Margréti Magnúsdóttur, formanni læknaráðs LSH, í Fréttablaðinu, þar sem fram kemur að fóstur séu að mestu fullmótuð eftir 12 viku og eftir það er fóstrið fyrst og fremst að vaxa og dafna.

Færa má góð rök fyrir því að fóstureyðing eftir þann tíma sé ekki einkamál konunnar og ætti ekki leyfa nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig er staðan í flestum eða öllum þeim löndum sem við berum okkur gjarnan við.

Tek því undir með Siðfræðistofnun HÍ að staldra við og fara ekki framúr sjálfum okkur og öllum öðrum,“ segir Brynjar.