Framkoma Seðlabankans í senn sorgleg og ógeðfelld

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja var borinn þungum sökum í umfjöllun Kveiks á RÚV í kvöld.

Þrátt fyrir að Samherji hafi verið sýknaður af kröfum Seðlabankans í Hæstarétti Íslands og sérstakur saksóknari hafði tekið sérstaklega fram að félagið hafi skilað gjaldeyri af kostgæfni, heldur Seðlabankinn áfram að dylgja um að starfsmenn Samherja séu „samt sekir“ og „hafi sloppið“. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samherja sem send hefur verið til fjölmiðla. Yfirlýsingin er viðbragð við svörum sem bárust frá Seðlabankaum í gær, þar sem tilkynnt var að farið yrði yfir verklagsreglur bankans, en engu að síður því haldið til streitu að lög sem unnið hafi verið eftir hafi verið ófullkomin og ekkert í dómi Hæstaréttar taki afstöðu til annarra málsástæðna, þar með talið meintrar brotlegrar háttsemi.

„Slík framkoma af hálfu stjórnvaldsins er í senn sorgleg og ógeðfelld“ segir í yfirlýsingunni.

„Nú, þegar Seðlabankinn hefur verið gerður afturreka með allan sinn málatilbúnað, er rétt að hafa eftirfarandi staðreyndir í huga:  

Rökstuddi grunur bankans í upphafi byggði á röngum útreikningum sem aðstoðarseðlabankastjóri yfirfór sérstaklega. Kom þetta meðal annars fram í dómi héraðsdóms eftir að framkvæmd húsleitar hjá Samherja var kærð.

Seðlabankinn tók virkan þátt í lagasetningu árið 2008 um gjaldeyrismál sem og öllum síðari lagabreytingum sem hann nú kennir Alþingi um. 

 Efnisleg niðurstaða í bréfi sérstaks saksóknara, þegar hann taldi ekki grundvöll fyrir ákæru í málatilbúnaði Seðlabankans, var að Samherji hefði skilað gjaldeyri af kostgæfni.

Skattrannsóknarstjóri skoðaði málið út frá skattalögum og taldi ekki tilefni til að aðhafast nokkuð. Meint laga- og regluklúður sem seðlabankastjóri hefur notað sem afsökun frá árinu 2015 hefur þar engin áhrif.

Héraðsdómur var vel og ítarlega rökstuddur og lá fyrir í apríl 2017. Seðlabankastjóri sagði dóminn umdeildan og ekki traustan en fimm hæstaréttardómarar komust að niðurstöðu um réttmæti héraðsdómsins á tveimur dögum.

Héraðsdómur tók sérstaklega fram að “þegar af þeirri ástæðu” að Seðlabankinn hafði tilkynnt um niðurfellingu máls hafi ekki verið ástæða til að skoða aðrar málsástæður Samherja.

Samherji tefldi fram fjölmörgum, formlegum og efnislegum vörnum en þar sem Seðlabankinn féll á fyrsta prófinu var ekki ástæða fyrir dómstóla að fara lengra.

Ekki er hægt að líta á það sem heilbrigðisvottorð á ásakanir eða stjórnsýslu Seðlabankans heldur þvert á móti staðfestir það hörmulega stjórnsýslu bankans. Er það með ólíkindum að bankinn ætli að reyna að snúa því sér í hag. 

Tilraunastarfsemi Seðlabankans með seðlabankastjóra og yfirlögfræðing bankans í fararbroddi á sér enga hliðstæðu og á ekkert skylt við jafnræði, meðalhóf eða aðrar meginreglur stjórnsýsluréttar.

Það er með ólíkindum að eftir allt sem á undan er gengið undanfarin tæp sjö ár að þurfa enn að sitja undir dylgjum bankans um að vera “samt sekir” og “hafa sloppið”.  

Samherji hefur boðið forsætisráðherra til fundar til að kynna henni málið enda heyrir Seðlabankinn undir embætti hennar. Er það von okkar að eftirlitsaðilar bankans, bankaráð og ráðherra skoði málið í heild sinni og framferði Seðlabankans undanfarin ár gagnvart lögaðilum og einstaklingum. Seðlabanki Íslands þarf að breyta verklagi og beita valdi sínu af virðingu og ábyrgð,“ segir í yfirlýsingunni.