Það kostar verslunarrisann Haga, sem að stærstum hluta er í eigu lífeyrissjóðanna, skildinginn að gera upp starfslok Finns Árnasonar og Guðmundar Marteinsson, enda þótt þeir hafi sjálfir óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu.
Markaður Fréttablaðsins greinir frá því í dag, að Hagar þurfi hið minnsta að gjaldfæra hjá sér yfir 300 milljóna króna einskiptiskostnað vegna starfslokanna. Guðmundur sé með þriggja ára uppsagnarfrest samkvæmt starfssamningi sínum en uppsagnarfrestur Finns sé eitt ár.
Báðir hafa þeir verið lengi meðal launahæstu manna í íslensku atvinnulífi. Finnur með yfir sex milljónir á mánuði og Guðmundur litlu minna. Auk þess hafa þeir báðir haft umtalsvert upp úr kaupréttarsamningum sínum hjá félaginu á umliðnum árum.
„Samkvæmt ákvæðum í starfssamningum Finns og Guðmundar skiptir ekki máli, að sögn þeirra sem þekkja vel til málsins, hvort þeir hafi sjálfir látið af störfum eða verið sagt upp og mun félagið því þurfa að taka á sig umtalsverðan kostnað vegna starfsloka þeirra,“ segir í Markaðnum.