Framsókn í frjálsu falli en vill forsætisráðuneytið

Fari svo að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra láti verða af því að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, liggur fyrir að stjórnarflokkarnir þrír þurfi að gera tilraun til að endurnýja sín heit og velja nýjan forsætisráðherra.

Samkvæmt heimildum Viljans leggja framsóknarmenn þunga áherslu á að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, verði næsti forsætisráðherra. Þetta gerist á sama tíma og nýr Þjóðarpúls Gallup sýnir Framsóknarflokkinn í frjálsu falli – flokkurinn fengi aðeins 7,3% fylgi og fjóra þingmenn, missti heila níu þingmenn frá síðustu kosningum.

Vinstri græn gera ekki kröfu um forsætisráðuneytið í áframhaldandi samstarfi, en gætu fellt sig við sáttatillögu um Sigurð Inga.

Sjálfstæðismenn benda á að þeir séu stærsti þingflokkurinn á þingi og hafi misst hlutfallslega minnst frá síðustu kosningum í samanburði við hina stjórnarflokkana tvo. Innan flokksins eru þær raddir háværar að skerpa þurfi á áherslum í samstarfinu, eigi það að halda áfram, og það verði best gert undir forystu Bjarna Benediktssonar formanns, eða þá varaformannsins Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ef samstaða næðist fremur um þá lendingu.

Þá er það og útbreidd skoðun meðal sjálfstæðismanna, að stutt sé í næstu alþingiskosningar og flokkurinn megi vart við því að leiða enn annan flokk til forsætis í ríkisstjórninni, en sitja sjálfur hjá.

Skjáskot úr fréttum RÚV um nýja Þjóðarpúlsinn.