Framsóknarfólk vill ekki sjá orkupakkann: Gjá milli þings og þjóðar

Guðni Ágústsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, segir gífurlega andstöðu við innleiðingu þriðja orkupakkans meðal framsóknarfólks um allt land og það sé mikið áhyggjuefni hversu mikil og djúp gjá hafi myndast milli þings og þjóðar í þessu stóra máli.

„Þingmennirnir virðast í engu skynja vilja fólksins í landinu. Þeir tala bara saman innbyrðis og eru sammála hverjir öðrum, en skynja ekki reiðina og óttann meðal landsmanna,“ segir Guðni í samtali við Viljann í dag.

Hann kveðst enn binda vonir við að ríkisstjórnin sjái að sér í málinu, því annars muni það hafa mjög miklar og víðtækar pólitískar afleiðingar. 

„Því er ranglega haldið fram að það þýði endalok EES-samningsins þótt við gætum hagsmuna okkar í þessu máli. Þetta minnir því miður mjög á áróðurinn sem var hafður uppi í Icesave málinu, þar sem átti að kúga okkur til hlýðni og margir stjórnmálamenn létu blekkjast. Við verðum engin Kúba norðursins þótt við innleiðum ekki þriðja orkupakkann,“ segir Guðni ennfremur.

Hann bætir við að það séu brýnir hagsmunir almennings að Íslendingum standi áfram til boða ódýr raforka til heimila og fyrirtækja og allskonar gróðaöfl stundi nú landakaup og hafi uppi áform um virkjanir fallvatna, bæjarlækja og vindorku til þess að fara í beina samkeppni við Landsvirkjun. Í framhaldinu verði svo gengið á lagið og kvartað yfir opinberu eignarhaldi á því fyrirtæki í samkeppni við einkarekin orkuver og þá sé voðinn vís, allir þekki hvert framhaldið verði og almenningur treysti ekki næstu þingum til að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar og að leggjast gegn sæstreng.

Allt logandi innan flokksins

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri, sagði á heimasíðu sinni í vikunni, að uppreisn væri í aðsigi í grasrót Framsóknarflokksins vegna þriðja orkupakkans.

Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri.

„Einn virkur flokksmaður hefur lýst andrúmsloftinu innan flokksins á þann veg, að þar sé allt logandi vegna málsins. Þetta kemur ekki á óvart. Auðvitað er framsóknarmönnum ljósara en öðrum hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir fylgi flokksins, standi þingmenn hans að samþykkt orkupakkans á Alþingi á sama tíma og þingmenn Miðflokksins greiði atkvæði gegn,“ sagði Styrmir í pistli sínum.

„Kjósendur í einstökum Evrópulöndum eru búnir að fá nóg af Brussel. Uppreisn grasrótarinnar í Sjálfstæðisflokki og Framsókn vegna Orkupakka 3 á sér áþekkar skýringar,“ bætir hann við.

Það virðist nú frekar sem þingmenn Framsóknarflokksins séu að verða viðskila við sína kjósendur

Guðni Ágústsson segir þetta rétt og stefna Framsóknarflokksins sé skýr, innleiðingu orkupakkans hafi verið hafnað og óskiljanlegt sé að það sé ekki virt. 

Frosti Sigurjónsson, fv. þingmaður Framsóknarflokksins og einn forsprakka Orkunnar okkar, sem berst gegn innleiðingunni, tekur jafnframt undir þetta.

„Það virðist nú frekar sem þingmenn Framsóknarflokksins séu að verða viðskila við sína kjósendur í málinu,“ segir Frosti í samtali við Viljann.