Landssamband framsóknarkvenna (LFK) lýsir yfir miklum áhyggjum vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, sem Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra hefur kynnt í samráðsgáttinni og hyggst svo leggja fram í ríkisstjórn og á Alþingi.
„Sýklalyfjaónæmi er ein helsta ógn sem steðjar að lýðheilsu, matvælaöryggi og framþróun í heiminum í dag samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og dauðsföllum af völdum fjölónæmra baktería fer fjölgandi,“ segir í ályktun framsóknarkvenna sem þær sendu Viljanum.
„Frumvarpið snýr að heimild til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Gert er ráð fyrir að horfið verði frá landamæraeftirliti sem á sér stað áður en vara kemur á markað – yfir í eftirlit sem á sér stað eftir að vara er komin inn í landið.
Ísland er í öfundsverðri stöðu í dag vegna lágs hlutfalls sýklalyfjaónæmis. Þetta lága hlutfall má rekja til mjög lítillar notkunar sýklalyfja í skepnum og vegna banns við innflutningi á hráu kjöti. Víða erlendis er mikið magn sýklalyfja í skepnum sem veldur háu hlutfalli sýklalyfjaónæmis á meðal fólks.
LFK telur því mikilvægt að verja sérstöðu Íslands varðandi matvælaöryggi og heilbrigði manna og gera allt sem í okkar valdi stendur sem þjóð að koma í veg fyrir að þessu öryggi sé ógnað með innflutningi á hráu ófrosnu kjöti,“ segir ennfremur í ályktun framsóknarkvenna.