Fréttablað Helga breytir um kúrs: Stjórnmálastefna Viðreisnar tekin upp

Helgi Magnússon fjárfestir.

Fréttablaðið hefur gert breytingar á ritstjórnarstefnu sinni með því að Helgi Magnússon og hópur fjárfesta hefur tekið yfir allt eignarhald frá og með deginum í gær.

„Stjórn Torgs hefur samþykkt ritstjórnarstefnu fyrir blaðið og miðla þess. Þar segir að stefna fjölmiðla félagsins sé að halda uppi borgaralegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi,“ segir Jón Þórisson, nýr ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins, í fyrsta leiðara sínum í blaðinu sem kom út í dag.

„Frelsi sé gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á lofti. Stjórnvöldum á hverjum tíma sé veitt aðhald á öllum sviðum og sama gildi um dómstóla. Fréttablaðið og miðlar þess aðhyllist alþjóðlegt samstarf Íslendinga á breiðum vettvangi og horft sé til þess að dýpka slíkt samstarf til framtíðar,“ bætir hann við, en ofangreint er allt í samræmi við stjórnmálastefnu Viðreisnar.

Helgi Magnússon og Sigurður Arngrímsson, sem kemur með sjónvarpsstöðina Hringbraut og samnefndan vefmiðil inn í fjölmiðlafélag Fréttablaðsins, hafa um árabil verið áhrifamiklir bakhjarlar Viðreisnar innan viðskiptalífsins.

Um er að ræða mikla stefnubreytingu af hálfu Fréttablaðsins, því undir stjórn hjónanna Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var stefna blaðsins að hafa ekki skoðun með þeim rökum að blaðið komi óumbeðið inn á flest heimili í landinu og verði því að stilla sig um pólitískan áróður.

Jón Þórisson ritstjóri Fréttablaðsins var áður aðstoðarbankastjóri Glitnis og forstjóri VBS.

Á vef Fjölmiðlanefndar er gamla ritstjórnarstefna Fréttablaðsins enn í gildi, en þar segir að blaðið hafi sjálft ekki skoðun á neinu máli.

„Skoðanapistlar ritaðir af starfsmönnum ritstjórnar eru undir þeirra nafni og á þeirra ábyrgð,“ segir þar og ennfremur að Fréttablaðið eigi að fjalla um margar hliðar mála og draga fram ólíkar skoðanir og sjónarmið. Vera opinn og líflegur umræðuvettvangur fyrir lesendur og birta daglega umræðugreinar frá þeim.