Viljanum hefur borist yfirlýsing frá Fréttablaðinu í kjölfar þess að Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði forsíðufrétt blaðsins um möguleg vistaskipti sín úr Miðflokknum falsfrétt í frétt okkar í morgun.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Í umfjöllun Fréttablaðsins í dag, þar sem fjallað er um stöðu mála á Alþingi, er hvergi fullyrt að Sigurður Páll Jónsson sé á förum úr Miðflokknum.
Fréttablaðið treystir heimildarmönnum sínum. Engu að síður er ljóst, miðað við fullyrðingar Sigurðar Páls í dag, að farið var of geyst í fréttaflutningi af túlkun þeirra á stöðu mála á Alþingi.
Fréttablaðið reyndi ítrekað að ná tali af Sigurði Páli í gær, bæði símleiðis og í gegnum skilaboð. Þá staðreynd hefði auðvitað átt að taka fram í fréttaflutningi blaðsins.
Fréttablaðið biðst velvirðingar á því að það var ekki gert.Í frétt sem þessari, þar sem fjallað er um stöðu einstakra þingmanna, þyrfti sjónarmið viðkomandi að koma fram.
Fréttablaðið reyndi að fá þau sjónarmið, án árangurs.