Fréttastofa Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis biður Gunnar Braga afsökunar

Þórir Guðmundsson, fréttastjóri Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis.

Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar hefur dregið til baka frétt sem birt var í hádeginu í dag og fjallaði um Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins og fv. utanríkisráðherra.

Eins og Viljinn skýrði frá í dag, brást sonur Gunnars Braga, við fréttaflutningi Bylgjunnar og sagði hann alrangan. Hið sama hafa fleiri aðilar, sem voru viðstaddir leiksýningu í Borgarleikhúsinu umrætt kvöld, gert.

Í frétt sem birtist á Vísi í kvöld segir:

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar og á Vísi í dag var sögð sú frétt að Gunnar Bragi Sveinsson hafi orðið missaga um áfengisneyslu sína en hann hefur sagt opinberlega að hann hafi ekki drukkið áfengi frá því í nóvember.

Í fréttinni var vísað til heimildarmanna um að Gunnar Bragi hafi verið drukkinn á sýningu Borgarleikhússins um miðjan janúar.

Fréttastofan gerði mistök með því að birta fréttina áður en náðist í Gunnar Braga sjálfan eða heimildar fengust staðfestar og biðst afsökunar á því.

Fréttaflutningurinn var ekki samkvæmt ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis og hefur fréttin því verið fjarlægð af vefnum.