Metfjöldi greindist sl. sólarhring hér á landi með COVID-19 frá því faraldurinn kom fyrst upp snemma árs í fyrra. Alls greindust 167 innanlands í gær. Það sem verra er, að met var líka sett í fjölda greindra utan sóttkvíar, þeir voru 122.
Nú liggja sextán á spítala með veiruna, þar af fimm á gjörgæslu. Góðu fréttirnar eru að barn sem lá inni á sjúkrahúsi í gær með COVID-19, hefur nú verið útskrifað og er komið heim.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og samkvæmt heimildum Viljans fyrir fundinn, lá fátt annað fyrir en grípa til aðgerða til að hægja á þjóðfélaginu næstu daga og takmarka þannig útbreiðslu veirunnar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra viðurkenndi við fjölmiðla í beinni útsendingu eftir fundinn í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, að skiptar skoðanir hefðu verið innan ríkisstjórnarinnar um nauðsyn aðgerða. Ábyrgðin væri skýrt hennar samkvæmt lögum og hún hefði því ákveðið að taka aftur grímuskyldu þar sem hún á við, skerða opnunartíma vínveitingahúsa um tvær klukkustundir og hámarka fjölda á viðburðum úr tvö þúsund niður í fimm hundruð. Nánar verður þetta kynnt í nýrri reglugerð seinna í dag.
Heilbrigðisráðherra ákvað í vikunni að framlengja óbreytta reglugerð um sóttvarnaráðstafanir á landamærum vegna Covid-19, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Reglugerðin gildir til 15. janúar 2022. Ástæðan er mikil fjölgun smita innanlands að undanförnu. Sóttvarnalæknir bendir á að faraldurinn sé í töluverðum vexti, þeim fari fjölgandi sem veikjast alvarlega og faraldurinn sé farinn að hafa íþyngjandi áhrif á starfsemi Landspítala. Um 2% þeirra sem greinast með Covid-19 þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.