Friðjón í KOM sinnir erindrekstri fyrir Atlantic Superconnection

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi.

„Umboðsmaður er kannski ofsagt, en já fyrirtækið Atlantic Superconnection hefur verið viðskiptavinur okkar undanfarin ár,“ segir Friðjón Friðjónsson, eigandi og framkvæmdastjóri KOM í samtali við Viljann.

Eins og Lundúnablaðið Times skýrði frá í gær og Viljinn sagði frá í morgun, segjast forsvarsmenn fyrirtækisins reiðubúnir með fjármagn til að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands og aðeins sé beðið eftir grænu ljósi frá breskum stjórnvöldum.

Friðjón er einn þekktasti almannatengill landsins. Hann er fv. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og átti sæti í kosningastjórn Guðna Th. Jóhannessonar í forsetakosningunum 2016, og segir að sæstrengsverkefnið hafi verið nokkuð brokkgengt á undanförnum árum og því sé ofsagt nú í breskum fjölmiðlum að það sé að verða að veruleika.

Hann segir að það sé gríðarleg framkvæmd að búa sæstrengi til og leggja þá og sem dæmi megi nefna að 800 störf eigi að verða til í kapalverksmiðjunni. Mikil spurn sé eftir köplum í Evrópu og því tækifæri fyrir fjárfesta að byggja slíka verksmiðju í Bretlandi nú. Það sé stór hluti af því sem forsvarsmaður félagsins, Edi Truell, sé að vísa til í viðtölum nú og tengist því fremur en Íslandsverkefninu beinlínis.

Frosti Sigurjónsson, fv. þingmaður Framsóknarflokksins og einn forystumanna Samtakanna Orkunnar okkar, sagði í samtali við Viljann fyrr í dag, að sæstrengur til Íslands sé á lista yfir styrkhæf innviðaverkefni hjá ESB og um leið og þriðji orkupakkinn verður samþykktur á Alþingi verði Ísland skuldbundið til að ryðja úr vegi hindrunum gegn tengingum yfir landamæri.