Frost í stjórnarsamstarfinu: Umdeild mál komast ekki á dagskrá

Staðan er við frostmark í stjórnarsamstarfinu og segja heimildamenn Viljans að besta dæmið um viðkvæmt ástandið sé að líta á dagskrá þingfundar í dag, sem birt hefur verið á alþingisvefnum.

Í dag fer í hönd það sem átti að vera seinni þingfundavika í stubbnum eftir forsetakosningar, sem ætlaður var til að afgreiða fjölmörg mikilvæg mál hjá ríkisstjórninni. Eftir hálfgert taugaáfall stjórnmálastéttarinnar vegna niðurstaðna kosninganna, fór liðin vika fyrir lítið og ekki er útlitið betra núna; öll stærstu málin og þau umdeildustu hafa verið tekin af dagskránni, þótt þau hafi sannarlega verið á henni fyrir helgi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur lagt mikla áherslu á að afgreidd verði mál á bak við lagaheimild um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, ÍL-sjóði, raforkufrumvarp, forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og útlendingamál. Vinstri græn vilja ljúka öryrkjafrumvarpi og mannréttindastofnun. Framsókn leggur áherslu á stórhækkun listamannalauna. Ekkert af þeim er á dagskránni, vegna þess að innbyrðis deilur stjórnarflokkanna hafa litað allt og ekkert samkomulag er um þingstörfin.

„Þetta eru stór mál sem þurfa tíma og alveg á eftir að koma í ljós hvernig stjórnarandstaðan tekur á þeim,“ segir stjórnarþingmaður sem Viljinn ræddi við í morgun. Hann lét þess og getið, að forsætisráðherra sé mikið kappsmál að þinglok nú verði ekki eins og á sama tíma í fyrra, þar sem stórum málum var skyndilega kippt af dagskránni og sett í frost; mál sem þó var talið mjög mikilvægt að afgreiða.

Hvort Bjarna Benediktssyni verður að ósk sinni er svo annað mál.