Frumvörp komin fram um fjölgun seðlabankastjóra og sameiningu við FME

Drög að frumvörpum forsætisráðherra vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits hafa verið birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Með frumvörpunum er lagt til að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið verði sameinuð í eina stofnun. Ekki eru lagðar til breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð þessara tveggja stofnana sameiginlega samkvæmt núgildandi lögum.

Helstu atriði frumvarps um Seðlabanka eru:

• Markmið Seðlabankans er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.

• Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn, að hámarki þó tvisvar sinnum. Þá skipar forsætisráðherra þrjá varaseðlabankastjóra einnig til fimm ára í senn og að hámarki tvisvar sinnum. Einn leiðir málefni er varða peningastefnu, einn leiðir málefni er varða fjármálastöðugleika og einn leiðir málefni er varða fjármálaeftirlit. Varaseðlabankastjórar fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits eru skipaðir eftir tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.

• Rekstur og stjórnun Seðlabankans er í höndum seðlabankastjóra. Hann ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin. Sumar ákvarðanir eru teknar sameiginlega af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum.

• Ákvarðanir um beitingu tiltekinna valdheimilda bankans eru teknar af peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd. Nefndirnar eru skipaðar 5-7 fulltrúum, bæði embættismönnum Seðlabankans og utanaðkomandi sérfræðingum á viðkomandi sviði. Seðlabankastjóri er formaður allra þriggja nefnda bankans.

• Varaseðlabankastjórar hafa faglega umsjón með vinnu bankans á sínum sérsviðum. Þeir bera ábyrgð á undirbúningi vinnu fyrir nefndir bankans og sitja jafnframt í einstökum nefndum bankans.

• Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við þau lög sem um starfsemina gilda. Í bankaráði sitja sjö manns sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi.

Í frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram samhliða koma fram breytingar á þrjátíu lögum m.a. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Að auki eru lagðar til þær breytingar á öðrum lögum um fjármálastarfsemi sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Af breyttu skipulagi Seðlabankans leiðir að lagt er til að kerfisáhættunefnd verði lögð niður og að hlutverki fjármálastöðugleikaráðs verði breytt.


Drög að frumvörpum til laga um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins