„Fullnaðarsigur“, segir Ólafur. „Naut ekki réttlátrar málsmeðferðar“

Ólafur Ólafsson. / Skjáskot: RÚV.

Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu í dómi sem birtur var í dag að brotið hafi verið gegn mannréttindum Ólafs Ólafssonar við meðferð Al-Thani málsins.  Í dómnum segir að Árni Kolbeinsson hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu. Er það niðurstaða dómsins að störf sonar hans fyrir Kaupþing fyrir og eftir hrun leiði til þess að draga megi í efa hlutleysi dómarans við meðferð málsins og að hann hefði af þeim sökum átt að segja sig frá því.

Í yfirlýsingu til fjölmiðla frá Ólafi Ólafssyni, sem barst nú í morgun eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, segir að það liggi nú fyrir að Al-Thani dómurinn hafi verið kveðinn upp af vanhæfum dómstól.  Það snúi uppá íslensk stjórnvöld að uppfylla þjóðréttalegar skuldbindingar sínar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu og beina málum af þessu tagi í viðeigandi farveg til að einstaklingar fái notið þeirra réttinda sem sáttmálinn byggir á.

„Niðurstaða Mannréttindadómstólsins sýnir fram á að ég naut ekki réttlátrar málsmeðferðar og úrlausnar fyrir óvilhöllum dómstólum, sem er einn af hornsteinum réttarríkisins,“ segir Ólafur í yfirlýsingunni.

„Þetta staðfestir athugasemdir sem ég hef gert við meðferð málsins á öllum stigum þess; íslenskir dómarar hafa ekki gætt að hæfi sínu og setið í dómi þar sem vafi leikur á hlutleysi þeirra. Í viðleitni til að sanna sakleysi mitt hef ég ítrekað rekist á veggi þar sem samtvinnuð hagsmunagæsla óskilgreindra afla í dómskerfinu hefur komið í veg fyrir að hægt væri að leiða hið sanna í ljós. Fegurðin við Ísland felst meðal annars í fámenninu en við þær aðstæður verður sérstaklega að gæta að hlutleysi í viðkvæmum málum vegna náinna tengsla í litlu samfélagi. Mannréttindadómstóllinn staðfestir að það er sannarlega brot á mannréttindum þegar vanhæfur dómari situr í dómi. Þetta er fullnaðarsigur,“ segir hann ennfremur.