Fulltrúar minnihlutans gengu út í mótmælaskyni og vísa málinu til ráðherra

Tillaga Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins um að senda ákvarðanir og athafnir Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 til frekari skoðunar í sveitarstjórnarráðuneytinu var ekki tekin til afgreiðslu. Tillagan var rædd í u.þ.b. fimm klukkustundir í dag og fram á kvöld.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði til breytingartillögu og mótmæltu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokks og Flokks fólksins henni harðlega enda sögðu þeir tillöguna óskylda þeirri tillögu sem flokkarnir lögðu fram.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, sagði tillögu meirihlutans á engan hátt taka til þeirra atburða sem leiddu til lögbrota borgarinnar í borgarstjórnarkosningunum 2018.

Í mótmælaskyni gengu fulltrúar minnihlutans úr sal á meðan tillagan var tekin til afgreiðslu.

Tillaga minnihlutans hljóðaði svo:

Lagt er til að ákvörðunum og athöfnum Reykjavíkurborgar í tengslum við bréfa- og skilaboðasendingar til tiltekinna kjósendahópa í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2018 verði vísað til sveitarstjórnarráðuneytisins til frekari skoðunar.

Breytingartillaga meirihlutans var svohljóðandi:

Borgarstjórn samþykkir að farið verði í samstarf við sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið verður yfir reynslu af verkefnum undanfarinna kosninga til að efla kosningaþátttöku, m.a. í ljósi ákvörðunar Persónuverndar. Markmiðið með samstarfinu er að leggja línur til framtíðar í samráði við viðkomandi stofnanir, ráðuneyti og frjáls félagasamtök og gera tillögur um með hvaða hætti er fært að hvetja til þátttöku í kosningum.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, upplýsti á fundinum um að hann myndi sjálfur óska eftir að ráðuneytið myndi skoða málið frekar. Áður hefur komið fram, að Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur kært framkvæmd kosninganna til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ekki nóg að læra af reynslunni, heldur þarf að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir þetta mál frá A til Ö. Eðlilegt er að sveitarstjórnarráðuneytið fari í málið. Reykjavíkurborg hefur orðið uppvís að því brjóta lög um persónuvernd og senda gildishlaðin og efnislega röng skilaboð til kjósenda. Borgin notaði aðstöðu sína til að hvetja handvalda hópa til að mæta á kjörstað. Hópa sem meirihlutinn taldi sér þóknanlega,” sagði Eyþór og bætir við að skattfé borgarinnar hafi verið notað til verkefnisins.

„Borgarstjóri lýsti því yfir í aðdraganda kosninga að allt verkefnið hafi verið unnið eftir réttum leiðum og leikreglum. Annað hefur komið í ljós með úrskurði Persónuverndar frá því fyrr í mánuðinum þar sem staðfest er að borgin braut lög. Auk þess óskaði borgin eftir undanþágu frá banni á óumbeðnum SMS-sendingum. Þeirri undanþágu var hafnað. Þrátt fyrir bannið sendi borgin ungum kjósendum SMS á kjördag, beinlínis til að hafa áhrif á hegðun kjósenda. Þetta bendir til þess að brotavilji hafi verið til staðar. Og það nokkuð einbeittur,“ bætti hann við.

Í greinargerð með tillögunni segir að byggt sé á „heimild í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum, sbr. 109., 110. og 112. gr. laganna. Samkvæmt 112. gr. laganna ákveður ráðuneytið n.tt. sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags sem lýtur eftirliti þess skv. 109. gr. laganna.

Þá segir enn fremur í greinargerð að þetta frumkvæðiseftirlit ráðuneytisins sé mikilvægur „þáttar í eftirliti þess með stjórnsýslu sveitarfélaga. Mælst er til þess að kannað verði hvort ráðuneytið telji tilefni til þess að virkja það vegna framangreindra atvika.“

Fundaofbeldi ekkert skylt við lýðræði

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir að uppákoman í kvöld hafi verið fundaofbeldi, sem ekkert eigi skylt við lýðræði.

Hún lagði fram svofellda bókun á fundinum:

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.

„Stofnunum ríkisins, Persónuvernd, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, dómsmálaráðuneytinu, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og vísindasiðanefnd var þvælt inn í hina svokölluðu „kosningarannsókn“ sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna.

Aldrei fyrr á Íslandi hefur verið gerð álíka árás á lýðræðið í landinu.

Dómsmálaráðuneytið gerði alvarlegar athugasemdir auk Persónuverndar. Póst- og fjarskiptastofnun hafnaði beiðni Reykjavíkur um að senda smáskilaboð til kjósenda með þessum ákvörðunarorðum: Umsókn Reykjavíkurborgar í samstarfi við Háskóla Íslands, um að fá undanþágu frá banni við óumbeðnum fjarskiptum samkvæmt 46. gr. laga um fjarskipti 81/2003 er hafnað.

En áfram var haldið. Ekkert í þessu máli varðar almannahagsmuni eins og það hugtak er skýrt í lögum. Það er kristaltært að viljinn til þess að hafa áhrif á kosningarnar var keyrður áfram af ásettu ráði og verknaðurinn var fullframinn og tókst. Reykjavíkurborg hylmdi yfir að svokölluð rannsókn var útvíkkuð á skrifstofum Ráðhússins þegar ákveðið var að bæta konum yfir áttrætt við og öllum útlendingum með lögheimili í Reykjavík skilaboð/bréf.

Það hefur verið metið ólögmætt. Að auki telur Persónuvernd það ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ekki veitt stofnuninni upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi hinn 14. maí 2018.“