Fullyrðir að samstaða sé um miðhálendisþjóðgarð á þingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og varaformaður VG ætlar að leggja fram frumvarp um stofnun miðhálendisþjóðgarðs á næstu vikum og telur hann að það verði að lögum fyrir þinglok.

Þetta kom í svari hans við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi í dag.

Gunnar Bragi vísaði til gagnrýni fjölmargra stjórnarliða á áformin, t.d. gagnrýni Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins, sem telur ástæðu til að hafa áhyggjur af því að frumvarpið geri ráð fyrir að skipulagsforræði einstakra sveitarfélaga skerðist.

„Ég velti því fyrir mér hvort ráðherrann sé svolítið einn á báti með þetta mál sitt, hvort það geti verið að stuðningur við þennan miðhálendisþjóðgarð og það sem honum fylgir, væntanlega þjóðgarðastofnun líka, sé ekki til staðar. Getur verið að málið eins og það kom frá þessum vinnuhópi eða starfshópi sé þannig búið að ekki nokkur maður geti sætt sig við það? Ég spyr því ráðherrann hvort hann hafi í raun trú á því að málið fari í gegnum þingið á þeim nótum sem hann hefur lagt upp með. Mun ráðherrann gera skýlausa kröfu um að miðhálendisþjóðgarður og þjóðgarðastofnun verði samþykkt samhliða? Er það rangt mat hjá mér að ráðherrann leggi mikið undir þegar kemur að þessu stóra máli, að hans mati í það minnsta?

Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður og fv. utanríkisráðherra.

Telur ráðherrann að unnt sé að mæta þeirri gagnrýni sem við höfum þegar heyrt frá þingmönnum stjórnarflokkanna og jafnvel einnig ráðherrum stjórnarflokkanna þegar kemur að þessu máli? Er það þannig að ráðherrann telji að búið sé að geirnegla það í samkomulagi stjórnarflokkanna að málið klárist nú á þessu þingi? Og ef ekki á þessu þingi hvenær þá?“ sagði Gunnar Bragi.

Umhverfisráðherra vísaði til þess að ákvæði um hálendisþjóðgarð sé að finna í stjórnarsáttmálanum. Skipuð hafi verið þverpólitísk nefnd um þessi efni og mikil viðbrögð hafi komið á samráðsgáttinni. Fulltrúar allra flokka nema Miðflokksins hafi skrifað undir skýrsluna, sem sé undirstaða þess frumvarps sem nú sé í smíðum.

„Það segir mér að það er samstaða um málið hér á þingi. Það er samstaða um að koma því áfram. Þetta er stórt og mjög mikilvægt mál. Þetta er mál sem mun auka samkeppnishæfi Íslands. Þetta er mál sem mun auka störf úti í byggðunum. Þetta er mál sem mun efla ferðaþjónustu úti um allt land og þetta er mál sem mun auka náttúruvernd í landinu, ekki síst að vernda óbyggð víðerni, þannig að þetta er vissulega mál sem sá sem hér stendur leggur mikið upp úr.“ sagði ráðherrann.