Fundað um stjórnarskrána í skugga gjaldþrots WOW

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Formenn allra stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi, áttu fund í í hádeginu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu um framgang endurskoðunar stjórnarskrárinnar.

Er um að ræða reglulegan fund formannanna, en þeir eiga að funda að minnsta kosti ársfjórðungslega til að leggja stærstu línur um framgang verkefnisins. Forsætisráðherra boðar fundina og stýrir þeim og virðist gjaldþrot WOW air í morgun og sú óvissa sem fylgir því engin áhrif hafa haft á fundarhöldin.

Viðmælendur Viljans telja að með þessu hafi forystumenn ríkisstjórnarinnar viljað senda út þau skilaboð, að himinn og jörð séu ekki að farast þrátt fyrir áfallið í morgun og dagskrá fólks haldist áfram.

Litlar líkur á meiriháttar breytingum

Fram hefur komið í fundargerðum fyrri formannafunda, að litlar líkur eru á þverpólitískri sátt um stórfellda endurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur til að mynda lagst gegn áformum um stórfelldar breytingar og undir það hafa Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn tekið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lýst vilja sínum til að leggja fram frumvarp/frumvörp um einstakar breytingar á Alþingi á síðasta haustþingi kjörtímabilsins.

Eftir eðli málsins hverju sinni verði svo skoðað hvort efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök frumvörp, annað hvort í formi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða alþingiskosningum eða í formi bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lok ferlis (gildistaka frumvarps væri þá háð því að það hlyti samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu).

Forsætisráðherra hefur falið Unni Brá Konráðsdóttur, fv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins og forseta Alþingis, að vera verkefnisstjóri vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar.